Eitt af fjölmörgum hlutverkum foreldra og forsjáraðila er að leiðbeina börnum sínum í lífinu og hjálpa þeim að takast á við þær áskoranir sem á vegi þeirra verða – standa vörð um hag þeirra og heilsu. Foreldrum og forsjáraðilum ber einnig að fylgja eftir lögum landsins sem segja að óheimilt sé að veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára (lög nr. 75/1998). Lög um áfengiskaupaaldur eru ekki sett af ástæðulausu, heilinn er enn að þroskast og mótast fram yfir 20 ára aldur og áfengi hefur slæm áhrif á þroska og heilsu. Það skiptir því miklu máli að fresta því sem lengst að drekka áfengi eða sleppa því alveg. Fjölmargar rannsóknir sem unnar hafa verið hér á landi sýna skýrt fram á að þau börn og ungmenni sem fá umhyggju, hlýju og samveru sem og aðhald og eftirlit frá foreldrum sínum búa við betri heilsu – andlega jafnt sem líkamlega, þeim gengur betur í skóla, neyta síður áfengis og annarra vímuefna og eru almennt hamingjusamari.
Áfengisdrykkja hefur verið normalíseruð í samfélaginu okkar, börnin eru alin upp við það að eðlilegt sé að fá sér vín við öll gleðileg tilefni og þeir sem starfa á vettvangi sjá börn alveg niður í 15 ára drekka áfengi með samþykki forsjáraðila sinna. Margir ráðamenn vilja auka aðgengi að áfengi og talað er um jafnrétti og frelsi í því samhengi, mörg fyrirtæki vilja hefja einkasölu áfengis með gróða í huga. Hugsa þarf málið til enda og horfa á stöðu ungmenna hjá nágranna þjóðum sem greitt hafa leiðina að áfengi. Það að hópur foreldra telji það eðlilegt að barn þeirra sé byrjað að drekka áfengi er verulegt áhyggjuefni og tekur okkur áratugi aftur í tímann. Við lok síðustu aldar var áfengisdrykkja barna og ungmenna umtalsvert vandamál. Árið 1998 sýndu rannsóknir til að mynda að 42% nemenda í 10. bekk höfðu orðið ölvuð einu sinni eða oftar síðastliðna 30 daga og slíkt átti við um 64% framhaldsskólanema. Með samhentu átaki fjölmargra aðila – líkt og Reykjavíkurborgar, ríkis, forvarnar- og fagaðila var blásið í þjóðarátak gegn drykkju unglinga. Ákallið náði sérstaklega til foreldra sem voru hvattir til að standa saman og sporna gegn því að börn þeirra væru að nota áfengi sem og önnur vímuefni. Árangur þess að samfélagið tók höndum saman er í raun ótrúlegur og Íslendingar hafa í fjölmörg ár verið þekktir fyrir aðgerðir til að sporna gegn áfengis- og vímuefnanotkun barna og ungmenna. Þannig sýna niðurstöður nú að um 6% nemenda í 10. bekk segjast hafa orðið ölvuð síðastliðna 30 daga og hlutfall framhaldsskólanema var komið niður í 35% 2021. Í dag er víða erlendis horft til Íslands sem fyrirmyndardæmis um hvernig sporna megi gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna og gjarna talað um hiðíslenska forvarnarmódel sem nú er útflutningsvara og unnið að innleiðingu í 18 löndum víðsvegar um heim. Þannig er hlutverk foreldra / forsjáraðila gert sýnilegt og lögð áhersla á samtakamátt og samvinnu. Að sama skapi hefur sá rammi sem íslenskt samfélag skapar með takmörkuðu aðgengi að áfengi, takmörkuðum opnunartíma og 20 ára aldurstakmarki verið einn af lykilþáttunum til að styðja við þann árangur sem náðst hefur.
Rannsóknir hafa sýnt að vanlíðan meðal ungmenna hefur aukist síðustu ár á Íslandi. Við þurfum að sjá börnin okkar, við þurfum að verja tíma með þeim og hlusta á þau. Við þurfum sem samfélag að grípa börnin sem sýna merki um vanlíðan, við þurfum að grípa þau strax. Mörg börn búa við erfiðar aðstæður þar sem forsjáraðilar eru ekki færir um að hjálpa þeim, en þessi börn eiga ekki að týnast, samfélagið á að koma auga á þau. Foreldrar vina, frænkur eða frændur, nágrannar, kennarar eða annað starfsfólk skóla. Rannsóknir hafa bent til þess að þegar börn búa við erfiðar aðstæður þá hefur það verndandi áhrif ef að minnsta kosti einn fullorðinn einstaklingur í þeirra lífi styður þau eða veita þeim öryggi á einhvern hátt.
Lausnin er ekki að loka augunum og slaka á öllu taumhaldi, við þurfum að vinna þetta öll saman. Börn og ungmenni þurfa ramma og reglur, þeim þarf að setja mörk og þau þurfa umhyggju og samveru með þeim sem þau elska. Á Íslandi erum við í sérstöðu til þess að greina ástandið og bæta það vegna smæðar okkar, við eigum tæki og tól og vitum hvað virkar. Stöndum saman og styðjum ungmennin okkar!