Stöndum saman veljum umhyggju í stað frjálshyggju og segjum NEI við auknu aðgengi að áfengi


Ísland hefur í áratugi verið þekkt fyrir aðgerðir til að sporna gegn áfengisnotkun barna og ungmenna. Samtakamáttur samfélagsins til að draga úr áfengisnotkun ungmenna hefur vakið athygli út um allan heim og eru þær aðgerðir orðnar útflutningsvara í dag sem hið íslenska forvarnamódel. Stór þáttur í þessum árangri á Íslandi er takmarkað aðgengi að áfengi m.a. ríkisrekin áfengisverslun, takmarkaður opnunartími, 20 ára aldurstakmark o.s.frv.



Því er merkilegt að fylgjast með því hve ákveðnir aðilar í stjórnkerfinu leggja mikla áherslu á að auka aðgengi að áfengi. Það vill gleymast að með því eykst aðgengi í raun ekki bara fyrir fullorðna, heldur líka fyrir börn og ungmenni þar sem netsala áfengis á greiða leið til þeirra.

 

Við sem stöndum að Samanhópnum tökum heilshugar undir orð þeirra fjölmörgu aðila og samtaka sem komið hafa fram með yfirlýsingar þar sem Alþingi er hvatt til þess að breyta rétt og afstýra því að netsala áfengis verði heimil, öllum til heilla en sérstaklega í þágu barna og ungmenna.

Bréf var sent til allra sveitarfélaga í lok maí þar sem bæjarfélög eru hvött til að minna á skilaboð SAMAN hópsins fyrir sumarið. Einnig fengu allir grunnskólar landsins bréf í byrjun júní þar sem skólastjórnendur eru beðnir um að senda bréf á foreldra barna sem útskrifast úr 10. bekk í vor og minna þá á að við berum áfram ábyrgð á börnum okkar, þótt þau séu búin að klára grunnskóla.

Samvera er ein besta forvörnin!

Forsaga hópsins er sú að um áramótin 1999-2000 tók hópur fólks sig saman og stóð að hvatningarátaki undir yfirskriftinni ,,Fjölskyldan saman á tímamótum”. Átakið fólst m.a í því að póstkortum var dreift inn á heimili landsmanna, auglýsingar birtust í ýmsum fjölmiðlum og greinar voru ritaðar í dagblöð. Átakið var endurtekið ári síðar og ákvað hópurinn að vinna áfram saman að forvörnum í tengslum við atburði þar sem líklegt var að aukning yrði á neyslu vímuefna meðal ungmenna.

Útivistarreglurnar

Ár hvert hefur SAMAN hópurinn hvatt foreldra til að kynna sér þær reglur sem gilda um útivistartíma barna og unglinga. Aðaláherslan hefur verið lögð á breytingar á haustin þegar hópurinn stendur fyrir birtingu auglýsinga til að minna foreldra og börn á breytingu á útivistartíma. Við hvetjum foreldra til að standa saman og virða útivistarreglurnar. 



Hægt er að kaupa segulinn með útivistarreglunum og plakat og hafa til dæmis sveitarfélög pantað segul og látið setja merki viðkomandi sveitarfélags á auglýsinguna. 

PÖNTUNARFORM

Markmið SAMAN-hópsins

STYRKJA FORELDRA

Að styrkja og styðja foreldra í uppeldishlutverkinu, beina athygli foreldra að ábyrgð þeirra á uppeldi barna sinna og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar.

EFLA SAMTAKAMÁTT

Að efla samtakamátt og samstarf þeirra sem vinna að forvörnum. Þeir sem standa að hópnum eiga það sammerkt að vinna á einhvern hátt með og fyrir börn og unglinga. Tengist sú vinna einkum forvörnum, uppeldi, menntun, meðferð og ráðgjöf.

GEGN ÁHÆTTUHEGÐUN

Að vinna gegn áhættuhegðun barna og unglinga með því að styðja við heilbrigðan lífsstíl og styrkja sjálfsmynd þeirra.

VEKJA ATHYGLI

Að vekja athygli á þeim hættum samfélagsins, svo sem áfengi, tóbaki og öðrum vímugjöfum, sem vinna gegn velferð barna og unglinga hverju sinni.

Fréttir & efni

15 Apr, 2024
Það er mikilvægt að foreldrar taki skýra afstöðu gegn kannabisneyslu þar sem viðhorf foreldra hefur áhrif á viðhorf barna þeirra. Goðsagnir um skaðleysi kannabisneyslu er best að kveða í kútinn með yfirveguðu samtali. Tökum skýra afstöðu. Til að geta það verða foreldrar að kynna sér kannbis og hvaða áhrif notkun þess hefur á ungt fólk. Hér er listi yfir skjöl og vefsíður þar sem finna má efni sem foreldrar geta nýtt sér. Bæklingur gefinn út af Landlækni (PDF): Kannabis – Leyfðu staðreyndum að hafa áhrif. Um kannabis á vef SÁÁ: Kannabis Grein úr Læknablaðinu (PDF): Eykur notkun kannabis hættu á geðrofi og þróun geðklofa? Grein eftir Ársæl Má Arnarson í Skólaþráðum: Breytingar á áfengis- og kannabisneyslu íslenskra unglinga 1995−2015
15 Apr, 2024
Ungmenni teljast börn að 18 ára aldri. Ábyrgð foreldra á börnum sínum er því ekki lokið þegar þau fara í framhaldsskóla. Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í lífi ungmenna á framhaldsskólaaldri. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að stuðningur foreldra getur komið í veg fyrir brotthvarf úr framhaldsskóla og stutt við nám og velferð ungmennis. Þegar kemur að félags- og skemmtanalífi ungmenna gegna foreldrar einnig lykilhlutverki, bæði sem fyrirmyndir og eftirlitsaðilar. Foreldrar hafa oft áhyggjur af áfengisnotkun ungmenna á framhaldsskólaaldri og auknu aðgengi að vímuefnum. Því er mikilvægt að þeir haldi sambandi við skólann, myndi tengsl við kennara og skólastjórnendur og taki þátt í að móta og framfylgja forvarnarstefnu. Úr Handbók um geðrækt í framhaldsskólum gefin út af Landlæknisembættinu 2015.
15 Apr, 2024
Ungmenni undir 18 ára aldri ættu aldrei að halda eftirlitslaus partý. Virt eftirlit foreldra.
Sýna allar fréttir
Share by: