Hjá hjálparsíðu Rauða krossins er hægt að fá aðstoð við vanlíðan bæði í síma og í netspjalli. Fólki í sjálfsvígshugleiðingum er bent á hjálparsíma Rauða krossins.
Um 95 manna hópur sjálfboðaliða starfar við símsvörun og spjall hjá Hjálparsímanum 1717 og netspjalli Rauða krossins.
Allir sjálfboðaliðar hafa farið í gegnum yfirgripsmikla fræðslu, námskeið og þjálfun áður en þeir byrja og er reglulega boðið upp á handleiðslu og fræðslufundi um málefni tengd Hjálparsímanum. Hjálparsíminn veitir virka hlustun og ráðgjöf um samfélagsleg úrræði til fólks á öllum aldri sem þarf á stuðningi að halda, t.d. sökum þunglyndis, kvíða eða sjálfsvígshugsana.
Auk þess veitir Hjálparsíminn sálrænan stuðning og ráðgjöf til þeirra sem telja að brotið hafi verið á sér á internetinu.
Hlutverk Hjálparsímans 1717 er því mjög víðtækt í þeim skilningi að vera til staðar fyrir alla þá sem þurfa að ræða sín hjartans mál í trúnaði og einlægni við hlutlausan aðila og má segja að ekkert sé Hjálparsímanum óviðkomandi.
Hjálparsíminn er í samstarfi við ýmsar stofnanir og samtök bæði innanlands og utan. Má þar nefna Landlæknaembættið, Neyðarlínuna, Geðhjálp, Barnaheill, Heimili og skóla og svona mætti lengi telja.