Verndandi þættir

Verndandi þættir

Út frá rannsóknum meðal annars frá Rannsóknum og greiningu vitum við ýmislegt um hvað skiptir mestu máli í forvörnum. Er oft talað um hina verndandi þætti í því sambandi. 

Útivistarreglurnar

SAMAN-hópurinn hefur um árabil hvatt foreldra til að kynna sér reglur um útivistartíma barna og unglinga og virða hann.

Reglur um útivistartíma eru árstíðarbundnar og taka breytingum 1. september og 1. maí ár hvert. Hópurinn leggur áherslu á að útvistartíminn taki samt sem áður mið af skólatíma að hausti því ein lykilforsenda þess að börnum og unglingum farnist vel er nægur svefn.

Á skólatíma, 1. september til 1. maí mega 12 ára börn og yngri lengst vera úti til kl. 20 en 13 – 16 ára börn mega lengst vera úti til kl. 22.

Yfir sumartímann, 1 maí til 1. september mega 12 ára börn og yngri vera lengst úti til kl. 22 en 13 – 16 ára börn mega lengst vera úti til kl. 24. Foreldrum er að sjálfsögðu heimilt að stytta útivistartíma barna sinna enda eru þeir forráðamenn barna sinna og unglinga.

Bregða má út af reglunum þegar börn eru í fylgd með fullorðnum og börn 13 – 16 ára eru á heimleið frá viðurkenndri skóla- íþrótta- eða æskulýðssamkomu.

Aldur miðast við fæðingarár.

Hægt er að panta segul og veggspjöld með útivistartímanum hér á síðunni: Útivistarreglurnar

Samvera

Samvera skapar góð tengsl er eitt af slagorðum SAMAN-hópsins sem á rætur sínar í niðurstöður rannsókna sem sýna að börn og unglingar sem verja tíma með foreldrum sínum eru síður líklegir til að sýna ýmis konar áhættuhegðun.

Fjölskyldan getur fengist við ýmislegt saman sem þarf ekki að kosta mikið eða jafnvel ekki neitt. Lengi býr að fyrstu gerð og því er ákjósanlegt fyrir foreldra að hvetja til samverustunda fjölskyldunnar þegar börn eru ung og halda þeim inn í unglingsárin eins og kostur er. Viðfangsefnin þurfa jafnframt ekki að vera flókin.

Dæmi um dýrmætar samverustundir er til dæmis að spila, föndra, göngutúrar, bíltúrar, sundferðir, fjallgöngur, elda saman, baka saman, horfa saman á sjónvarpið, spila saman tölvuleiki, hlusta á tónlist og mikilvægast af öllu að tala saman. 

 

Þátttaka í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi

Þátttaka barna og unglinga í hvers kyns frístundastarfi er gróið í menningu okkar Íslendinga. Frístundastarf er öflug forvörn ef starfið er skipulagt og ábyrgir leiðbeinendur leiða starfið.

Mörg börn finna sig í íþróttastarfi ýmist innan hverfis eða utan. Dæmi um íþróttir er fótbolti, handbolti, körfubolti, sund, fimleikar, skautar, tennis, klifur, karate og tae kwon do. 

Fyrir börn sem finna sig ekki í íþróttum er hægt að fara í skátana, á námskeið hjá Nexus, læra skák eða á myndlistarnámskeið svo eitthvað sé nefnt. 

Tónlistarnám er í flestum sveitarfélögum og í sumum skólum eru jafnvel starfandi skólahljómsveitir þar sem börn geta lært á hljóðfæri. 

Félagsmiðstöðvar eru starfandi í öllum landshlutum og fer þar fram skipulagt starf fyrir 10-12 ára börn og svo 13-15 ára.

Upplýsingar um skipulagt íþrótta- og tómstundastarf má finna hér í tenglasafninu: Íþróttir og tómstundir

Að þekkja vini og foreldra

Einn mikilvægur verndandi þátttur þegar kemur að forvörnum er að foreldrar þekki vini barna sinna og foreldra þeirra og að foreldrar viti hvar börnin þeirra eru á kvöldin og um helgar. 

Það er hægt að bjóða vinum barnanna í mat, spilakvöld eða annars konar samveru. Svo er alltaf gefandi og nærandi að fara saman í göngu, fjallgöngu eða sund og bjóða jafnvel bekkjarfélögum og foreldrum með. 

Að taka þátt í foreldrastarfi í skólum barnanna er ein leið fyrir foreldra til að kynnast öðrum foreldrum. Það má til dæmis gera með því að mæta á foreldrafundi og bekkjarkvöld, taka þátt í foreldrarölti eða bjóða sig fram til þess að vera í stjórn foreldrafélags eða sem bekkjarfulltrúi.