Áttu barn í framhaldsskóla? Höldum áfram að leiðbeina og setja skýr mörk

Ungmenni teljast börn að 18 ára aldri. Ábyrgð foreldra á börnum sínum er því ekki lokið þegar þau fara í framhaldsskóla.

Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í lífi ungmenna á framhaldsskólaaldri. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að stuðningur foreldra getur komið í veg fyrir brotthvarf úr framhaldsskóla og stutt við nám og velferð ungmennis. Þegar kemur að félags- og skemmtanalífi ungmenna gegna foreldrar einnig lykilhlutverki, bæði sem fyrirmyndir og eftirlitsaðilar. Foreldrar hafa oft áhyggjur af áfengisnotkun ungmenna á framhaldsskólaaldri og auknu aðgengi að vímuefnum. Því er mikilvægt að þeir haldi sambandi við skólann, myndi tengsl við kennara og skólastjórnendur og taki þátt í að móta og framfylgja forvarnarstefnu.

Úr Handbók um geðrækt í framhaldsskólum gefin út af Landlæknisembættinu 2015.