Other languages:

Sumarátak 2010 - Saman í sólinni

Sumarið 2010 ákvað sumarhópurinn að nýta aftur sólina frá árinu 2009 í öðruvísi formi. Haft var samband við hönnuðinn sem sá um hönnunina í fyrra til að setja sólina í nýjan búning. Eins var ákveðið að fara ekki í að hengja upp útskornir sólir eins og í fyrra þar sem það kostaði mikið. Þegar endurgerð auglýsing var tilbúin, með öðrum texta og slagorðinu „Saman í sólinni“ var hún send í prentun. Þá fór hún í stóru borgarstandana 17. júní – 5. júlí, þeir eru 25 talsins víðs vegar um borgina. Eins fór auglýsingin á heimasíðu hópsins og í blað UMFÍ Skinfaxa. Loks fór hún í birtingu á Stöð 2 og Skjá 1 nokkrum sinnum yfir sumarið. Þá var SAMAN-dagur haldinn á Akureyri og tókst vel til. Það voru 16 ára unglingar í bæjarvinnunni sem skipt var niður í 3 hópa og hlýddu á stutta fyrirlestra og umræður í framhaldi. Rætt var um unglinga og samkynhneigð, unglinga/kynlíf og áfengi og svo viðhorf unglinga til hlutverka kynjanna. Um hádegisbil marseraði allur hópurinn niður gilið og þar var SAMAN-sólin hengd upp en 9 krakkar höfðu búið hana til með hjálp Jonnu listakonu. Að því loknu var haldið áfram niður á torg. Þar var grillað og dansað hókípókí, tveir Hvanndalsbræður tóku lagið við mikinn fögnuð og Hlín Bolladóttir nýkjörinn formaður samfélags- og mannréttindaráðs ávarpaði hópinn. Við viljum sérstaklega þakka listakonunni Jonnu og Hvanndalsbræðrum, en þau ásamt öðrum sem lögðu verkefninu lið, gáfu vinnu sína. Sumarleikur í tengslum við verkefnið snerist um örsögusamkeppni þar sem unglingar 14-16 ára gátu tekið þátt og sent inn örsögu um skemmtilegt frí með fjölskyldunni. Nokkrar sögur skiluðu sér og var ein valin úr sem þótti standa upp úr og hlaut Karen Helenudóttir gistingu fyrir fjölskylduna á KEA hóteli og bensíninneign frá Orkunni upp á 30 þús. kr. Saga Karenar hét „Boston ferðin mín og mömmu“ og sagði hún frá ferðalagi þeirra mæðgna og þegar eldgos hófst á Íslandi þegar þær voru á heimleið. Leikurinn var kynntur í bréfi sem fór til flestra vinnuskólana á landinu og voru flokkstjórar beðnir um að koma skilaboðunum til unglinganna.

 

auglýsing