Other languages:

Greinar

Í gegnum árin hefur SAMAN hópurinn safnað að sér greinum og pistlum sem má finna hér til hliðar. Greinarnar eru flestar eftir meðlimi SAMAN hópsins..

Unglingar og bæjarhátíðir

Fjölskyldan saman á bæjarhátíðum og foreldrar góðar fyrirmyndir!
Bæjarhátíðir eru árlegur viðburður á mörgum stöðum. Litlir sem stórir bæir víðs vegar um landið lifna við og taka stakkaskiptum. Hús, garðar og götur eru skreytt og mikil stemning myndast. Íbúar kappkosta að sýna gestum það besta sem bærinn þeirra hefur upp á að bjóða og gera hátíðina í ár betri en í fyrra. Eftirvænting og tilhlökkun ríkir oft í margar vikur áður en hátíðirnar hefjast, bæði hjá börnum og fullorðnum.

Þó bæjarhátíðir hafi mismunandi yfirbragð eru gleði og samvera ríkjandi þættir. Skemmtikraftar mæta á svæðið, göturnar iða af lífi, krakkar fá andlitsmálun og flestar einkennast hátíðirnar af fjölskyldustemningu, -allavega fram eftir degi. En hvað gerist svo þegar kvölda tekur? Liggja leiðir foreldra og unglinga þá ekki saman lengur? Hverfur fjölskyldustemningin?
Samfara bæjarhátíðum eru oft haldin böll með 16 ára aldurstakmarki. Það er gleðilegt ef foreldrar og unglingar geta dansað og skemmt sér saman en því miður er það skuggi á glæsileika margra bæjarhátíða að böllin verða til þess að unglingadrykkja verður áberandi fylgifiskur þeirra.

Þessu er þó auðveldlega hægt að sporna við og eru foreldrar mikilvægustu aðilar til þess.
Foreldrar geta haft afgerandi áhrif á hvað þeirra unglingur gerir með því að fylgja honum vel eftir, vera góð fyrirmynd og bjóða upp á samveru sem er gefandi fyrir unglinginn.
Kannanir hafa sýnt að unglingar sem verja miklum tíma með fjölskyldu sinni, búa við umhyggju, aðhald og stuðning foreldra eru líklegri til að forðast áhættuhegðun, s.s. áfengis- og fíkniefnaneyslu. Þau eru einnig líklegri til að standast neikvæðan hópþrýsting.

SAMAN-hópurinn hvetur foreldra til aukinna samvista við unglingana. Sýnum þeim ást okkar og umhyggju óhikað, m.a. með því að fylgja þeim eftir þar sem hætta er á að áfengi eða fíkniefni séu í umferð.
Nokkrir góðir sumarpunktar!
Við kaupum ekki áfengi fyrir börnin okkar.
Við fylgjumst með hvað börnin okkar gera og með hverjum þau eru.
Við leyfum ekki eftirlitslaus partý.
Við hleypum börnum okkar ekki einum á útihátíðir/bæjarhátíðir.
Við nýtum öll tækifæri til samveru við hvort annað, börn, frænkur, foreldra og fjölskyldur.
Við erum góðar fyrirmyndir!
Ef ábyrgðin er í réttum höndum og grundvallaratriðin ljós er líklegra að gæfan verði okkur hliðholl og allir skemmti sér vel.


Áfram foreldrar! Gleðilegar bæjarhátíðir í sumar.

Sumarkveðja frá SAMAN-hópnum.

Inga Vildís Bjarnadóttir, félagsráðgjafi og fulltrúi Borgarbyggðar í SAMAN-hópnum

Að skapa góðar minningar

Margir eiga góðar minningar úr bernsku um samveru fjölskyldunnar í sumarfríinu. Stundatafla fjölskyldunnar breytist á sumrin og þá fá foreldrar fleiri sóknarfæri til að auðga fjölskyldulífið með auknum samverustundum með börnum sínum. Líklegt er að þá hafi bæði hinir fullorðnu og börn meiri tíma aflögu þegar hinum fasta ramma, sem skólinn setur fjölskyldunni, sleppir. Börn og unglingar fá þá gjarnan tækifæri til að takast á við ný verkefni, kynnast kannski nýjum vinahópum og margir vinna sér inn aura. Sumarið er því sannarlega tími tækifæra. Fjölskyldan getur verið meira saman, farið í frí og lagt inn góðar minningar. En sumarið getur líka verið áhættutími í lífi barna og unglinga.

Samanhópurinn sem landssamtök foreldra eiga aðild að hefur á undanförnum árum sent foreldrum skilaboð og hvatt til aukinna samverustunda foreldra og barna. Að foreldrar setji börnin í fókus og sýni umhyggju í verki. Foreldrar eru minntir á breyttan útivistartíma, að þeir viti hvar börnin eru og með hverjum, að kaupa ekki áfengi fyrir yngri en 20 ára og leyfa ekki eftirlitslaus partý eða útilegur. Kannanir sýna að samverustundir fjölskyldunnar eru mikilvægar fyrir þroska barna og einnig hefur komið fram að börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum en þau eiga nú kost á. Umhyggja, aðhald og eftirlit foreldra styrkir unglinga sem gerir þá líklegri til að standast betur neikvæðan hópþrýsting.

Börn og unglingar segja enn að foreldrar séu fyrirmyndir sínar og öll börn þurfa að finna að þau eru dýrmæt, að foreldrar vilji verja tíma sínum með þeim. Hagsmunir barnanna þurfa að vera í fyrirrúmi og það sem þeim er fyrir bestu. Allir þekkja varnarorðin um að byrgja brunninn og að við tryggjum ekki eftir á né spólum til baka í uppeldinu.

Foreldrar þurfa að hafa í huga að ekki er gott að börnin fái á tilfinninguna að foreldrarnir hafi ákveðið af einskærri skyldurækni að eiga með þeim samverustund af því það sé í tísku, hafi komið út úr rannsóknum eða að einhver hafi sagt foreldrunum að gera það. Börn þurfa að finna að samveran sé ekta en ekki kvöð og að foreldrar vilji og langi til að eyða tíma með börnum sínum. Börn þurfa að finna að foreldrar leggi sig fram um að fjölskyldan hafi gaman saman þar sem börnin eru í fókus.

Foreldrar sýnum umhyggju í verki í sumar.

Júní 2008 Helga Margrét Guðmundsdóttir Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra

Börnin þurfa á nærveru okkar að halda

Nú standa yfir samræmd próf í grunnskólum landsins og hópur nemenda er að ljúka tíu ára skyldunámi. Fyrir suma er það spennandi og skemmtilegt verkefni en aðrir fyllast kvíða og streitu. Það er mikilvægt að við foreldrar styðjum börnin okkar í þessu verkefni, hvetjum þau á uppbyggilegan hátt, séum til staðar og gefum þeim af tíma okkar.

Foreldrar, skólar og félagsmiðstöðvar hafa undanfarin ár unnið saman að því að skipuleggja ýmsa atburði fyrir 10. bekkinga strax að loknum samræmdum prófum. Hefur verið almenn ánægja með framkvæmdina og unglingarnir átt góðar stundir með skólafélögum, foreldrum, kennurum og starfsmönnum félagsmiðstöðvanna. Það hefur mikið að segja við foreldrar tökum virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd þessara atburða. Það er ekki síst á ábyrgð okkar að stuðla að því að unglingurinn okkar fagni þessum þáttaskilum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Margar fjölskyldur móta líka sínar eigin hefðir til að halda upp á tímamótin með unglingnum sínum og er það vel.

Við foreldrar berum ábyrgð á uppeldi barnanna okkar og menntun a.m.k. þar til þau ná 18 ára aldri. Rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeim börnum sem upplifa umhyggju, aðhald og eftirlit foreldra líður betur, þeim gengur betur í skóla og þau eru síður líkleg til að neyta áfengis og annarra vímuefna. Næstu dagar og vikur eru erfiðir dagar fyrir mörg börn. Þau þurfa á nærveru okkar og umhyggju að halda núna og það þolir enga bið. Hvernig ætlar þú að forgangsraða?

28.04.2008 Bergþóra Valsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK og fulltrúi í SAMAN-hópnum

Foreldrar-stöndum vörð um unglingana okkar

Í dag lýkur samræmdum prófum í grunnskólum landsins. Vissum lokapunkti hefur verið náð og þungu fargi af mörgum létt. Ástæða er til að gera sér glaðan dag.

Sem betur fer hefur þróunin orðið sú síðustu ár að unglingum í 10. bekk stendur ýmislegt skemmtilegt og uppbyggilegt til boða í tilefni prófloka. Unglingarnir hafa verið duglegir að nýta sér þær ferðir og skemmtanir sem skipulagðar eru á þessum tímamótum og nú er svo komið að hópasöfnun unglinga með ölvun og ólátum heyrir nánast sögunni til. Þennan góða árangur má m.a. þakka samstilltu átaki þeirra sem láta sig málefni ungmenna varða s.s. skólayfirvalda, starfsfólki félagsmiðstöðva, fjölmiðla, lögreglu og síðast en ekki síst – foreldra.

Foreldrar gera sér æ betur grein fyrir skaðlegum áhrifum ótímabærrar áfengisneyslu á líf ungmenna. Þeir hafa með virkum hætti tekið ábyrgð á uppeldi barna sinna og spornað gegn hvers konar vímuefnaneyslu þeirra. Það hafa þeir m.a. gert með því að hvorki samþykkja unglingadrykkju né stuðla að henni með kaupum á áfengi handa unglingunum. Jafnframt hafa þeir staðið saman og ekki leyft eftirlitslaus partý á sínum heimilum, heldur verið til staðar og fylgst með að allt fari vel fram.

Mikilvægt er að foreldrar og aðrir haldi áfram því góða starfi sem grunnur hefur verið lagður að þannig að lok samræmdra prófa verði skemmtilegur, áfallalaus og vímuefnalaus áfangi í lífi unglinganna okkar. Foreldrar, systkini, frændur og frænkur! Sýnum væntumþykju okkar í verki, virðum landslög og kaupum ekki áfengi fyrir ungmenni yngri en 20 ára!

Apríl 2008 Marta Kristín Hreiðarsdóttir, félagsfræðingur hjá forvörnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúi hennar í SAMAN-hópnum

Sumarið og forvarnir

Hækkandi sól og lengri útivistartími segir okkur að sumarið sé að koma. Okkur hefur gengið vel í forvörnum í Hafnarfirði og sérstaklega á veturna. Erfiðara er að standa að öflugu forvarnastarfi á sumrin. Rannsóknir sýna að þá eykst neysla barnanna á tóbaki, áfengi og vímuefnum.

Hvernig getum við háttað forvörnum á sumrin?

Við kaupum ekki áfengi fyrir börnin okkar. Það að kaupa áfengi fyrir barnið sitt hefur neikvæð áhrif; með aðveldara aðgengi að áfengi eykst drykkjan og vinirnir drekka líka. Við reynum að fylgjast með hvað börnin okkar gera og með hverjum þau eru? Hér sýna rannsóknir að það að foreldrar sýni því áhuga hvað börnin aðhafast og með hverjum þau eru hefur jákvæð áhrif á börnin. Börn þessara foreldra fara síður þangað sem þau mega ekki fara og eru frekar í góðum vinahópi. Við leyfum ekki eftirlitslaus heimapartý. Foreldrar ættu að vera á staðnum, aðstoða við að börnin læri að skemmta sér á eðlilegan hátt og vera þannig styðjandi og áhugasamir foreldrar. Við hleypum börnum okkar ekki einum á útihátíðir. Foreldrar fara í auknum mæli með börnum sínum á alls konar sumarskemmtanir og gengur það oftast vel. Það veit enginn hvað getur gerst þegar börn og unglingar fara ein á útihátíðir en unglingar hafa oft lent í vanda á slíkum skemmtunum. Rannsóknir hafa ítrekað leitt í ljós að þeim börnum sem upplifa aðhald, umhyggju og eðlilegt eftirlit foreldra líður betur en ella, þeim gengur betur í skóla og þau eru síður líkleg til að neyta áfengis og annarra vímuefna

Samvera foreldra og barna er besta forvörnin. Hún kostar tíma og áhuga en hún skilar sér til barna okkar. Við getum ekki mælt samveru út frá peningum en ljóst er að við erum fyrirmyndir barnanna okkar og þau læra af okkur. Meiri samvera í dag þýðir betra uppeldi og árangursríkari forvarnir.

Geir Bjarnason forvarnafulltrúi í Hafnarfirði

Forvarnir á sumrin

Í kjölfar samræmdu prófanna stóðu skólar, foreldrafélög og félagsmiðstöðvar að próflokaferðum fyrir nemendur 10. bekkjar. Farið var í allskonar ævintýraferðir þar sem próflokum var fagnað á skemmtilegan hátt í góðra vina hópi. Með þessu verkefni læra unglingarnir að fagna tímamótum. Þessar ferðir heppnuðust afar vel í ár að sögn unglinganna.

Hér er gott dæmi um vel heppnað samstarf sem skilar okkur öllum jákvæðum afrakstri. En við þurfum að halda áfram og huga að forvörnum allt sumarið.

Svo virðist vera að þétt öryggis- og forvarnanet hlúi vel að börnum og unglingum á veturna en á sumrin virðist öll neysla aukast og ungt fólk byrjar neyslu sína. Okkur er því ljóst að sumarið er sérstakur áhættutími en hvernig eigum við að ná árangri í forvörnum á sumrin?

1. Vinnuskóli. Í gegnum starfsemi Vinnuskólans er reynt að koma jákvæðum skilaboðum til nemenda. Flokkstjórar gegna mikilvægu hlutverki og hafa fengið fræðslu um það hvernig hægt er að styðja unglinganna til góðra verka.

2. Félagsstarf. Í gegnum allskonar félagsstarf er reynt að koma bjóða unga fólkinu upp á uppbyggilegt vímuefnalaust frítímastarf. ÍTH er búið að auka framboð sitt fyrir tómstundastarf í sumar og gefst ungu fólki t.d. tækifæri til að sækja félagsmiðstöð www.hraunid.is/, aukið framboð er á starfi fyrir krakka úr 6. og 7. bekk í Hrauninu, Dverg og Hraunvallaskóla og síðast en ekki síst hafa aldrei verið fleiri sumarnámskeið fyrir yngri börn á vegum ÍTH og annarra félagasamtaka.

3. Foreldrar. Á sumrin gegna foreldrar lykilhlutverki því að í gegnum sumarfrí gefst kjörið tækifæri til samvista. Við þurfum að hafa unga fólkið með okkur í fríinu, vita með hverjum unga fólkið er og finna leiðir til að vinna að sameiginlegum verkefnum.

SAMAN-hópurinn, sem er samstarfshópur aðila víðs vegar um landið sem vinnur að því að senda foreldrum skýr skilaboð varðandi uppeldi barna, hefur sent inn á öll heimili landsins póstkort þar sem minnt er á nokkur grunnatriði sem foreldrar unglinga ættu að íhuga vel í sumar.

Í sumar er SAMAN-hópurinn með eftirfarandi hvatningarorð til foreldra: • Vitum hvar börnin okkar eru og með hverjum • Virðum útivistartímann • Kaupum ekki áfengi fyrir yngri en 20 ára • Setjum tímamörk á tölvunotkun • Leyfum ekki eftirlitslaus partý eða útilegur

Þessi grundvallaratrið eiga auðvitað alltaf að gilda en í hugum okkar er sannarlega þörf á að leggja sérstaka áherslu á þau í sumar.

Sumarið er einmitt sá tími sem rannsóknir sýna okkar að ungmenni byrja og auka neyslu sína á áfengi, tóbaki og öðrum vímuefnum.

Sumarið er einnig sá tími sem við höfum oft tækifæri til að eyða meiri tíma með börnunum okkar. Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir barna sinna og með því að eyða meiri tíma í leik og starfi með börnum okkar í sumar styrkjum við sambandið og stuðlum að forvörnum.

27.febr.2008 Geir Bjarnason forvarnafulltrúi í Hafnarfirði

Á ég að kaupa vín, fyrir börnin mín?

Sumir foreldrar kaupa áfengi fyrir börnin sín og telja að þannig geti þeir frekar stjórnað drykkju þeirra. Þá er verið að horfa á að með þessu sé verið að takmarka magnið og kenna börnunum að drekka einhverjar “réttar” tegundir. Sumir telja að með því að leyfa börnum sínum frekar að drekka léttar tegundir missi þau börnin síður í hættulegri vímuefni og telja foreldrarnir sig tryggja að barnið drekki ekki hættulegan landa.

Hinsvegar virðist raunin vera önnur því að það er ýmislegt sem bendir til að þessi rök haldi ekki nema að takmörkuðu leiti. • Við erum með því að kaupa áfengi handa þeim, að viðurkenna að þau megi drekka og þá bera foreldrar fulla ábyrgð á því sem upp kemur í kjölfarið. • Rannsóknir sýna að með þessu þá verði unglingar oftar ölvaðir en þeir unglingar sem þurfa að fara erfiðari leiðir við öflun áfengis. • Með því að láta okkar eigin ungling fá áfengi erum við í leiðinni að auka aðgengi annarra unglinga að áfengi. • Nýlegar rannsóknir sýna að með því að útvega unglingum áfengi eru foreldrar að bæta við neysluna hjá unglingnum.

Árangur af vímuvarnastarfi er skýr hjá grunnskólanemendum, þar hefur okkur tekist sameiginlega að minnka mikið áfengi, tóbaks og hassneyslu. Hins vegar hefur okkur ekki tekist nægilega vel til eftir að grunnskóla lýkur.

Eyðum hátíðunum með unga fólkinu og verum góðar fyrirmyndir.

27.febr.2008 Geir Bjarnason forvarnafulltrúi

Sumarið og tækifærin

Sumarið er tíminn! Sumarið er tími tækifæra til að njóta svo margs. Allan veturinn bíðum við eftir góða veðrinu og löngum dögum og sumarnóttum. En þessi tími líður alltaf ótrúlega hratt. Það er því mikilvægt að staldra við og ákveða hvernig við nýtum þennan dýrmæta tíma.

Við foreldrar njótum þeirra forréttinda að bera ábyrgð á börnunum okkar a.m.k þar til þau eru 18 ára gömul. Við höfum þennan tíma til að njóta samverustunda, fylgjast með þroska þeirra, leiðbeina þeim og miðla gildum. Þessi tími kemur ekki aftur, hann verður ekki endurtekinn og ekki settur í bið. Það er ekki eftir neinu að bíða, grípum tækifærið!

Mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar fyrir þroska barna og vellíðan er óumdeilt. Þau börn sem fá mikinn stuðning frá fjölskyldunni, eru undir virku eftirliti foreldra og verja miklum tíma með þeim, líður betur,þeim gengur betur í skóla og neyta síður áfengis og annarra vímuefna.

Börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum heldur en þau eiga kost á í dag. Sumarið er tími tækifæra fyrir foreldra til að bæta um betur og safna góðum minningum með börnum sínum. Sundferðir, samtöl, að borða saman, spila, ferðast saman og bara hanga saman, allt skiptir máli. Það skiptir máli að slaka á og njóta stundarinnar. Það þarf ekki alltaf að skipuleggja allt í smáatriðum, alltaf. Stundum detta frábær tækifæri til samveru í fangið á okkur, þá er gott að geta gripið!

5.júlí 2007 Bergþóra Valsdóttir fulltrúi SAMFOK í SAMAN-hópnum

Að lífið væri bjargsig

Ímyndum okkur að lífið sé bjargsig. Foreldrar búa börn sín af stað niður klettinn sem lífið er, halda í tauminn og beina barninu örugga leið með öruggan útbúnað. Þegar komið er nokkuð áleiðis finnur barnið að það getur fótað sig sjálft en þarf enn á örugga handleiðslu foreldra og traustu handtak. Ekki má sleppa taumnum þótt meiri slaki sé gefinn.

Eftir nám í grunnskóla eru flestir unglingar farnir að átta sig á því hvernig best er að fóta sig í lífinu. Rannsóknir á lífsháttum þeirra og líðan sýna að sífellt fleiri velja að nota hvorki tóbak, áfengi né vímuefni. Þannig koma þau flest úr grunnskóla að vori og huga að frekari menntun. Umhyggja og aðhald foreldra hefur stutt þau og hvatt til að velja heilbrigðan lífsstíl. En að hausti taka við breytingar. Nýr skóli, nýir vinir, nýtt félagslegt umhverfi. Þó að þetta sé skemmtilegur tími er hann að mörgu leyti erfiður. Vitað er að tíminn frá lokum grunnskólans þar til nám er hafið í framhaldsskóla er sá tími þegar neysla ungmenna á tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum eykst. Full ástæða er því fyrir foreldra að halda enn fast um tauminn þótt meiri slaki sé gefinn.

Í framhaldsskólum er öflugt og skemmtilegt félagslíf sem sýnir þann kraft og dugnað sem býr í nemendum. Um framhaldsskólaböll gilda ákveðnar reglur sem rétt er að foreldrar og forráðamenn kynni sér vel. Partý fyrir böllin eru vinsæl og jákvætt að foreldrar opni heimili sín fyrir vinum barnanna en mikilvægt er að þá sé alltaf einhver ábyrgur fullorðinn til staðar ef eitthvað kemur upp á. Boð um eftirlitslaus partý eru fljót að berast og geta því auðveldlega komið upp aðstæður sem unglingar geta ekki ráðið við. Undanfarið hefur borið nokkuð á svokölluðum bjórkvöldum fyrir nemendur í framhaldsskólum. Þessi kvöld eru ekki á vegum skólanna heldur einhverra utanaðkomandi aðila í samstarfi við viðkomandi skemmtistað. Mikilvægt er að foreldrar séu vakandi fyrir þessu því hvert ár sem unglingurinn frestar því að byrjar að drekka áfengis skiptir miklu máli. Stundum heyrist sú röksemd að betra sé að unglingurinn fái áfengi heima hjá sér, þá sé í það minnsta vitað hvað hann er að drekka og hve mikið. Norrænar rannsóknir sýna þó að þeir sem fá áfengi heima hjá sér drekka meira enda foreldrar búnir að samþykkja drykkjuna og þegar nestið að heiman er búið hefur dómgreindin dofnað og auðvelt að bæta á sig.

Það er spennandi að hefja nám í framhaldsskóla enda minnast margir áranna þar sem sinna skemmtilegustu stunda. Þegar stúdentshúfan verður sett upp vona allir foreldrar að sitt barn eigi góðar og jákvæðar minningar. Til að svo verði þurfa foreldrar áfram að halda um tauminn með umhyggju og aðhaldi. Slaka á taumnum en ekki sleppa því þannig nær barnið góðri lendingu.

4. júlí 2007 Hildur Björg Hafstein Formaður SAMFOKS

Höngum SAMAN í sumar!

Þannig hljóðar hvatning SAMAN hópsins til foreldra og barna sumarið 2009. Að hanga saman getur gert kraftaverk, því eins og rannsóknir hafa sýnt þá er samvera foreldra og barna ein besta forvörnin.Samveran getur falist í mörgu, til dæmis því að fara saman í sund eða útilegu, spjalla saman, hlaupa, flatmaga í sólinni, elda, dansa, hlæja og borða saman. Að borða saman er einmitt eitt af því sem bæði börn og foreldrar hafa væntingar um og hefur það komið fram í mörgum rannsóknum.Niðurstöður vinnu Rannsóknar og greiningar á líðan barna sem unnin hefur verið um árabil hefur leitt í ljós þann vilja barna að vera enn meira með foreldrum sínum. Á forvarnardegi forseta Íslands kom það skýrt fram í máli ungmenna að þau vilja verja tíma sínum með foreldrunum, við matarborðið og í frítíma sínum. Nákvæmlega það sama kom í ljós þegar foreldrar voru spurðir, þeir vilja meiri tíma með börnum sínum. Þannig tóna raddir foreldra og barna saman, en það er á ábyrgð foreldranna að gefa sér tíma og skipuleggja heimilislífið þannig að þessi markmið náist.Það hefur sýnt sig að sumarið er áhættutími fyrir marga. Þá virðast margir unglingar byrja að fikta við áfengi og annað því tengt. Þess vegna hefur SAMAN hópurinn lagt áherslu á að koma sínum skilaboðum á framfæri yfir sumartímann.Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er ljóst að ríki og sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki þurfa að draga úr útgjöldum og minnka kostnað. Öll þurfum við í sameiningu að leita leiða til að mæta efnahagsástandinu á sem uppbyggilegasta máta. Í því gegna foreldrar lykilhlutverki gagnvart börnum sínum.Til að koma í veg fyrir að börn og unglingar séu í reiðuleysi og hafi lítið fyrir stafni í sumar viljum við hvetja foreldra til dáða í sínu mikilvæga hlutverki. Íslensk náttúra er stórbrotin og áhugaverður vettvangur útivistar og upplifunar, íslenskt mannlíf einkennist oft af samkennd og því að við erum öll á sama báti. Höngum saman í sumar okkur til ánægju, börnum okkar til gæfu og samfélaginu til heilla.Gleðilegt sumar! F.h. SAMAN hópsins

Arnfríður S. Valdimarsdóttir Verkefnastjóri ÍTR
Marta Kristín Hreiðarsdóttir Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
Þorvaldur Víðisson Miðborgarprestur Dómkirkjunnar

Að fjölskylduböndin séu kærleiksbönd – líka í sumar

Sumarið er yndislegur tími, dagarnir langir og næturnar stuttar. Sumarvinna tekur við af skólavetrinum hjá flestum unglingum og ferðalög og frí er reynsla margra.

Á sumrin er gjarnan upplagt tækifæri fyrir fjölskyldurnar að eyða meiri tíma saman. Mikilvægt er að nýta það tækifæri vel, því börnin og unglingarnir vilja eyða tíma með okkur foreldrunum, það segja kannanir. Fjölskylduböndin skipta alla máli en flókið getur reynst að rækta þau. Eitt atriði sem skiptir miklu er að ábyrgðin sé ljós. Við foreldrar berum ábyrgð á börnum okkar í það minnsta þar til þau verða átján ára. Þess vegna skulum við sameinast um að hafa skilaboðin skýr og standa saman um grundvallaratriðin. Útivistartíminn er í gildi á sumrin líka og við foreldrar megum ekki þreytast á því að miða við þær útivistarreglur sem eru í gildi. Áfengi er samkvæmt lögum óleyfilegt þeim sem er yngri en tuttugu ára. Þess vegna skulum við ekki hvetja til unglingadrykkju með því að útvega þeim sem yngri eru áfengi. Eftirlitslausar útilegur geta verið hættulegur vettvangur fyrir varnarlausa unglinga. Á sumrin er skemmtilegt að fara í útilegur. Hins vegar er ekki æskilegt að leyfa eftirlitsleysi þar frekar en á öðrum sviðum.

Ef ábyrgðin er í réttum höndum og grundvallaratriðin ljós er líklegra að gæfan verði okkur hliðholl. Í sumar skulum við því leitast við að gera fjölskylduböndin öll að kærleiksböndum og stuðla að því að fjölskyldan sé saman með börnin í fókus.

Með sumarkveðju, Sr. Þorvaldur Víðisson Miðborgarprestur Dómkirkjunnar Fulltrúi Þjóðkirkjunnar í SAMAN hópnum 30. júní 2007

Fjölskyldan saman með börnin í fókus

Á sumrin fá foreldrar aukin sóknarfæri til að auðga fjölskyldulífið með auknum samveru-stundum með börnum sínum. Líklegt er að þá hafi bæði hinir fullorðnu og börn meiri tíma aflögu þegar hinum fasta ramma, sem skólinn setur fjölskyldunni, sleppir. Stundatafla fjölskyldunnar breytist. Börn og unglingar fá tækifæri til að takast á við ný verkefni, kynnast kannski nýjum vinahópum og vinna sér inn aura. Fjölskyldan getur verið meira saman, farið í frí og lagt inn góðar minningar en sumarið getur líka verið áhættutími í lífi unglinga.

Á dögunum kynnti Samanhópurinn þema sumarsins sem er: “Fjölskyldan saman með börnin í fókus – sýnum umhyggju í verki” og með því er lögð áhersla á mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar fyrir þroska barna. Vísað er í kannanir sem sýna að börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum heldur en þau eiga nú kost á.

Samanhópurinn leggur því áherslu á eftirfarandi skilaboð til foreldra: 1) Vitum hvar börnin okkar eru og með hverjum 2) Virðum útivistartímann 3) Kaupum ekki áfengi fyrir yngri en 20 ára 4) Setjum tímamörk á tölvunotkun 5) Leyfum ekki eftirlitslaus partý eða útilegur.

Í forvarnarvinnu er mikilvægt að beina sjónum að hinu jákvæða og uppbyggilega og hverfa meira frá því að lýsa upp hroðann í formi hræðsluáróðurs þar sem dregnar eru upp hryllingsmyndir af unglingum, útihátíðum eða slysum. Við megum þó aldrei líta fram hjá skaðsemi unglingadrykkju og hve mikil áhrif hún getur haft á líf einstaklinga. Hvert ár skiptir máli varðandi byrjunaraldurinn og vissulega þurfa foreldrar að vita hvað er í húfi. Það sem hefur þó einkennt forvarnarumræðuna undanfarið er að nú er meira en áður unnið út frá niðurstöðum rannsókna, líka um það hvað vel er gert og hvernig gera má betur. En rannsóknir eru auðvitað ekki forvörn í sjálfu sér, aðeins eitt tæki til að skoða samfélagið sem svo er hægt að vinna út frá.

Börn og unglingar segja enn að foreldrar séu fyrirmyndir sínar og öll börn þurfa að finna að þau eru dýrmæt, að foreldrar vilji verja tíma sínum með þeim og foreldrahlutverkið hafi forgang. Allir þekkja varnarorðin um að byrgja brunninn og að við tryggjum ekki eftir á eða spólum til baka í uppeldinu.

Foreldrar þurfa að hafa í huga að ekki er gott að börnin fái á tilfinninguna að foreldrarnir hafi ákveðið af einskærri skyldurækni að eiga með þeim samverustund af því það sé í tísku, hafi komið út úr rannsóknum eða að einhver hafi sagt foreldrunum að gera það. Börn þurfa að finna að samveran sé ekta en ekki kvöð og að foreldrar vilji og langi til að eyða tíma með börnum sínum. Börn þurfa að finna að foreldrar leggi sig fram um að fjölskyldan hafi gaman saman þar sem börnin eru í fókus. Foreldrar sýnum umhyggju í verki í sumar.

21.júní 2007 Helga Margrét Guðmundsdóttir Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra

Stöndum vörð um hagsmuni unglingana

Samtaka, svæðisráð foreldra barna í grunnskólum, forvarnafulltrúi, félagsmiðstöðvar og lögreglan á Akureyri hafa tekið höndum saman um aðgerðir vegna hugsanlegra hópamyndunar í Kjarnaskógi meðal akureyrskra unglinga föstudagskvöldið 11. maí.

Á síðasta ári söfnuðust margir unglingar saman í Kjarnaskógi, flestir voru til fyrirmyndar en allt of margir voru undir áhrifum áfengis. Ofantaldir aðilar vonast eftir að með samvinnu og samstilltu átaki foreldra sé hægt að koma í veg fyrir að slík hópamyndun endurtaki sig. Þá þurfa foreldrar að standa saman um að setja unglingunum mörk varðandi útivistartíma, leyfa alls ekki eftirlitslaus partý í heimahúsum, skilja þá ekki eftir eftirlitslaus á stöðum eins og Kjarnaskógi og alls ekki kaupa áfengi fyrir þá. Þess er óskað að foreldrar mæti á lögreglustöðina á sameiginlegt foreldrarölt allra grunnskólanna núna föstudagskvöldið 11. maí, kl. 23:00.

Sýnum ábyrgð, verðum virk og stöndum vörð um hagsmuni unglingana!

15.maí 2007 Bryndís Arnarsdóttir, forvarnafulltrúi Akureyrarbæjar

Foreldrarölt á Akureyri

Nú standa yfir samræmd próf meðal nemenda í 10. bekk og er síðasti prófdagurinn 9. maí nk. Þar með ljúka unglingar merkum áfanga í lífi sínu og skiljanlegt að þeir vilji gera sér glaðan dag. Foreldrar hafa komið að skipulagningu óvissuferða og annarra uppákoma strax að loknum prófunum sem hefur borið þann árangur að dregið hefur úr því að þau haldi upp á tímamótin með hópamyndun og áfengisdrykkju.

Hins vegar er það ekki fullnægjandi því borið hefur á hópamyndun og unglingadrykkju helgina eftir að samræmdu prófum lýkur. Á síðasta ári söfnuðust margri unglingar saman í Kjarnaskógi við Akureyri, allt niður í 13 ára aldri. Flest voru til fyrirmyndar en allt of margir voru undir áhrifum áfengis, því nægt framboð var af því, ásamt öðrum efnum, því að sjálfsögðu mættu einnig seljendur fíkniefna á staðinn. Við slíkar aðstæður aukast líkur á því að einhverjir standist ekki hópþrýsting og hefji sína fyrstu áfengisneyslu. Enn fremur er það þekkt að unglingar undir áhrifum áfengis eru líklegri til að prófa önnur efni eins og hass, amfetamín og e-töflur. Með samstilltu átaki foreldra er hægt að koma í veg fyrir að slík hópamyndun endurtaki sig. Þá þurfa foreldrar að standa saman um að setja unglingunum mörk t.d. varðandi útivistartíma, leyfa alls ekki eftirlitslaus partý í heimahúsum, skilja þá ekki eftir eftirlitslaus á stöðum eins og Kjarnaskógi og alls ekki kaupa áfengi fyrir þá. Þar með stöndum við vörð um hag þeirra. Við þurfum að koma þeim skilaboðum áleiðis að þeir séu okkur mikilvæg og því skipti það okkur foreldrana miklu máli að vita hvar þeir eru og hvað þeir eru að gera. Sameiginlegt foreldrarölt allra grunnskóla á Akureyri hefur verið skipulagt undanfarin ár föstudaginn eftir samræmdu prófin en, því miður hefur verið misbrestur á að foreldrar axli ábyrgð sína í eftirlitinu því mjög fáir hafa mætt á röltið þetta kvöld. Þessi dagur ber nú upp á föstudaginn 11. maí og er það hvatning okkar til foreldra að sem flestir mæti á lögreglustöðina kl. 23:00 um kvöldið.

Sýnum ábyrgð, verðum virk og stöndum vörð um hagsmuni barna okkar!

15.maí 2007 Bryndís Arnars, forvarnafulltrúi Akureyrarbæjar

X-unga fólkið - kjósum bjarta framtíð

Þessa dagana er kosningabarátta flokka og frambjóðenda í algleymingi. Allir keppast við að gefa bitastæð kosningaloforð sem eiga að skapa veröld nýja og góða – með hjálp fjölmiðla sem sjá um að miðla boðskapnum til almennings (okkar hinna) Baráttumál flokkanna eru ólík sem og áherslur þeirra en þegar öllu er á botnin hvolft er það markmið þeirra allra að stuðla að sem bjartastri framtíð lands og þjóðar.

Kosningar merkja tímamót, úrslit þeirra hafa ekki einungis áhrif á líf og lífsstefnu frambjóðendanna heldur þjóðarinnar allrar.

Í öllu kosningafárinu vill það gleymast að fleiri standa á mikilvægum tímamótum lífs síns. Þessa dagana þreyta 10. bekkingar í grunnskólum landsins samræmd próf. Niðurstöður prófanna eiga eftir að hafa afgerandi áhrif á náms- og starfsval þessara ungmenna í nánustu framtíð og jafnvel fyrir lífstíð. Því er mikilvægt að við styðjum vel við bakið á börnunum okkar, bæði í prófaundirbúningi og próftöku.

En lífið er ekki bara menntun og starf. Í skóla lífsins fer ekki síður fram dýrmætt nám. Því miður er það svo að ekki er þó öll lífsreynsla til góðs. Rannsóknir hafa sýnt að margir unglingar hefja áfengisneyslu við lok grunnskóla eða upphaf framhaldsskóla, á tímapunkti þar sem líkamlegur og andlegur þroski þeirra er ekki að fullu úttekinn. Slík neysla hefur því oft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir líf unglingsins eins og ég hef margoft orðið vitni að í mínu starfi. Því eldra sem fólk er þegar áfengisneysla þess hefst, því minni líkur eru á að neyslan hafi alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn – hver mánuður og hvert ár skiptir hér máli.

Því vil ég hvetja alla; ungmennin sjálf, foreldra, systkini, aðra ættingja, vini og frambjóðendur allra flokka til að leggja sitt af mörkum til að gera lok samræmdra prófa að vímulausum tímamótum í lífi ungmenna.

Stöndum með unglingunum okkar! Sýnum ástúð Tökum ábyrga afstöðu Kjósum unga fólkið

11.maí 2007 Marta Kristín Hreiðarsdóttir Fulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í SAMAN-hópnum

Hæ 10. bekkingur

Til hamingju með áfangann sem framundan er, lok samræmdra prófa! Ég vona að þér hafi gengið vel, í það minnsta samkvæmt áætlun eða bestu getu.

Ætlar þú að gera eitthvað í tilefni tímamótanna? Í kringum þig eru án efa fjölskylda og allmargir sem þykir vænt um þig sem vilja fagna með þér. Skólafélaga áttu einnig og vonandi félaga og vini. Mig langar að biðja þig að hugsa um heilsu þína og líf, gera ekkert sem gæti skaðað þig eða aðra. Það standa þér án efa margar dyr opnar og tilboðin eru mörg sem bjóðast ungu fólki í dag. Sumt er mjög farsælt og gæfuríkt, annað miður svo og hættulegt. Hafðu í huga að stundum er betra að staldra við og snúa til baka við þröskuldinn og velja farsælli leið. Gangi þér vel á þeirri göngu og mundu að þú ert enn barn foreldra þinna.

Um leið og við vonum flest að margir kjósi Eirík Hauksson í Finnlandi og atkvæðin dreifist eitthvað á milli flokkanna í Alþingiskosningunum, skalt þú kjósa að vera SAMAN með þeim sem þykir vænst um þig, foreldrum þínum, fjölskyldu eða þeim sem reynast þér best. Farðu vel með þig!

04.maí 2007 Sr. Þorvaldur Víðisson Miðborgarprestur Dómkirkjunnar og fulltrúi í SAMAN hópnum

Samræmdu prófin og ábyrgð foreldra

Nú líður að samræmdum prófum í grunnskólum landsins. Hópur nemenda er að ljúka tíu ára skyldunámi og framtíðin blasir við. Ekki er ósennilegt að mörgum grunnskólanemum finnist ástæða til að fagna á þessum tímamótum og er það vel enda stórum áfanga náð.

Undanfarin ár hefur SAMAN–hópurinn stuðlað að því að þessum tímamótum væri fagnað á heilbrigðan og eftirminnilegan hátt. Foreldrar, skólar og félagsmiðstöðvar hafa m.a. unnið saman að því að skipuleggja ýmsa atburði fyrir 10. bekkinga strax að loknum samræmdum prófum. Hefur verið almenn ánægja með framkvæmdina og unglingarnir átt góðar stundir með skólafélögum, foreldrum, kennurum og starfsmönnum félagsmiðstöðvanna.

Það er mikilvægt á þessum tímamótum að við styðjum börnin okkar gegnum síðasta sprettinn í prófaundirbúningi, hvetjum þau og gefum þeim af tíma okkar. Einnig að við tökum virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd þeirra skipulögðu skemmtana sem unglingum standa til boða að loknum prófum. Það er ekki síst á ábyrgð okkar foreldra að stuðla að því að unglingurinn okkar fagni þessum þáttaskilum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Við foreldrar berum ábyrgð á uppeldi barnanna okkar og menntun a.m.k. þar til þau ná 18 ára aldri. Rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeim börnum sem upplifa umhyggju, aðhald og eftirlit foreldra líður betur, þeim gengur betur í skóla og þau eru síður líkleg til að neyta áfengis og annarra vímuefna.

Lok samræmdra prófa eru tímamót þar sem sumir unglingar prófa að neyta áfengis í fyrsta sinn. Í ár ber svo við að helgin eftir að samræmdum prófum lýkur er kosningahelgi og Eurovisionhelgi. Mikilvægt er að foreldrar standi saman og leyfi ekki eftirlitslaus partý á sínum heimilum heldur séu til staðar og fylgist með að allt fari vel fram. Við brýnum fyrir foreldrum, systkinum, frændum og frænkum að sýna væntumþykju sína í verki, virða landslög og kaupa ekki áfengi fyrir ungmenni yngri en 20 ára.

2. maí 2007 Bergþóra Valsdóttir framkvæmdastjóri SAMFOK og fulltrúi í SAMAN-hópnum

Jól og áramót - tími fjölskyldunnar

Nú þegar jól og áramót eru framundan eru margir að skipuleggja hvernig eigi að gera sér glaða hátíðardaga. Rykið er dustað af hefðunum og margir setningar byrja á orðunum „Við höfum nú alltaf .....“ eða „Í fyrra ....... Við skipulagninguna þarf að taka tillit til allra í fjölskyldunni og fjölskyldunnar í heild. Þessir hátíðisdagar eru kærkomið tækifæri fyrir fjölskyldur til treysta böndin, njóta samverunnar og skapa þannig góðan grunn til að byrja nýtt ár á.

Margir telja að unglingar vilji lítið vera með “gamla settinu”. Staðreyndin er sú að börn og unglingar njóta, meira en foreldra grunar, samvistanna og þar með athyglinnar og aðhaldsins sem því fylgir. Börn sem telja sig vera í nánu sambandi við foreldra sína líður almennt betur, gengur betur í skóla og leiðast síður út í fikt eða neyslu áfengis- tóbaks og annarra vímuefna. Með því að gefa börnunum tíma, athygli og ramma um lífið eru foreldrar að gefa þeim góðar gjafir, gott veganestið út í lífið. Þetta á við um börn á öllum aldri. Unglingar sem eru að nálgast fullorðinsárin þurfa ekki síður á umhyggju og aðhaldi foreldra sinna. Þó það slakni á taumnum eftir því sem börnin stækka þá er mikilvægt að foreldrar sleppi honum ekki.

Á óskalista 9 ára stelpu voru hvers kyns gæludýr ofarlega en líka ýmis mjúkdýr. Til að koma í veg fyrir misskilning skrifaði hún alltaf „plat“ fyrir aftan mjúkdýrin. T.d. bangsi (plat), mús (plat). Það hjálpaði foreldrunum mikið. Neðst á listanum stóð svo stórum stöfum „Gleði og hamingja (ekki plat)“ Eflaust áttaði þessi stelpa sig ekki á því hversu þörf þessi áminning var foreldrunum. Þegar við sem erum fullorðinn lítum tilbaka þá eru það minningar af fjölskyldunni saman að stússast og sýsla, fíflast og leika sem eru okkur svo dýrmætar. Þá birtist þessi gleði sem 9 ára stelpa vildi fá með jólapökkunum.

Gefum fjölskyldunni tíma, gleði og hamingju (ekki plat).

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

16.desember 2005 Hildur Björg Hafstein Lýðheilsustöð Verkefnisstjóri SAMAN- hópsins

Foreldrar - verum fyrirmyndir

Undanfarið hafa borist fréttir af góðum árangri af forvarnastarfi hér í borg og um landið allt. Rannsóknir á tóbaks-, áfengis og vímuefnaneyslu sýna að íslensk ungmenni kjósa fremur að halda út í lífið án þessar efna. Þessar gleðifregnir kalla fram spurninguna hvað valdi?

Engin ein skýring er haldbær enda hafa margir lagt sitt á vogarskálarnar ekki síst ungmennin sjálf en oft vill gleymast að þessi árangur er fyrst og fremst þeirra. Áhrif foreldra á börn þannig að þau velji heilbrigðan lífsstíl verða seint ofmetin. Rannsóknir sýna að slagorðið ,,Foreldrar eru bestir í forvörnum” er í fullu gildi. Þegar kemur að neyslu tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna skiptir umhyggja, eftirlit og aðhald foreldra mjög miklu máli.

Í nýrri samevrópskri könnun á tóbaks-, áfengis- og vímuefnaneyslu, kom fram að eftirlit foreldra og aðhald skiptir miklu hvað varðar það hvort unglingar byrji að reykja, neyta áfengis eða annarra vímuefna. Í könnuninni voru nemendur spurðir hvort foreldrar vissu hvar þeir væru á laugardagskvöldum. Í 30 löndum af 31 kom fram fylgni milli þessara þátta þannig að ef foreldrar vissu ekki um unglingana var líklegra að þeir reyktu, drykkju eða notuðu önnur efni. Sterkust var fylgnin fyrir alla þættina þrjá hér á Íslandi. Íslenskar rannsóknir sýna skýrt að þeir unglingar sem telja sig njóta umhyggju og aðhalds foreldra fara síður að reykja eða drekka.

Foreldrar sem fyrirmyndir

Börn líta mjög til foreldra sinna eftir leiðbeiningum um hegðun og þau gera eins og við gerum frekar en eins og við segjum. Foreldrar ættu sérstaklega að hafa þetta í huga þegar um er að ræða tóbak, áfengi og önnur fíkniefni. Hvernig foreldrar fara með þessi efni og hvaða viðhorf þeir hafa til þeirra skiptir gríðarmiklu máli fyrir það hvort og þá hvernig barnið velur að nota þau.

Stuðningur og reglur

Mikilvægt er að foreldrar sýni börnum sínum stuðning og leiði þau til heilbrigðs lífs. Skilaboðin til barnanna verða að vera skýr og reglurnar sem þau eiga að fylgja verða að liggja ljósar fyrir. Það hefur sýnt sig að ef foreldrar eru samtaka um þær reglur sem eiga að gilda um líf barnanna þá verða þær fljótt sjálfsagður hluti af daglegu lífi sem allir fylgja.

Kannanir á viðhorfum foreldra til ýmissa þátta sem snúa að lífi ungmenna hafa verið gerðar nokkuð reglulegar undanfarin ár. Í niðurstöðum þeirra kannana hefur komið fram skýr rammi sem foreldrar vilja hafa um líf barna sinna. Sem dæmi má nefna að meirihluti foreldra segist ekki leyfa eftirlitslaus partý fyrir börn sín á grunnskólaaldri, ekki útvega þeim áfengi, virða reglur um útivistartíma og ekki leyfa þeim að fara eftirlitslausum á útihátíðir.

6.maí 2005 Hildur Björg Hafstein Verkefnisstjóri skólafræðslu

Fjölskyldan er lykill forvarna á sumrin

Á sumrin breytast áherslur foreldra í uppeldishlutverki sínu. Félagslegt umhverfi barnanna breytist og tækifæri gefast til aukinnar samveru. Áhrif skóla, foreldrafélaga, félagsmiðstöðva og vetraríþróttastarfsins eru minni. Síðustu ár hafa rannsóknir sýnt að á sumrin eykst áhættuhegðun ungs fólks s.s. að neysla á tóbaki, áfengi og vímuefnum.

Góðir sumarpunktar: o Við kaupum ekki áfengi fyrir börnin okkar. o Við reynum að fylgjast með hvað börnin okkar gera og með hverjum þau eru? o Við leyfum ekki eftirlitslaus heimapartý. o Við hleypum börnum okkar ekki einum á útihátíðir. o Við nýtum öll tækifæri til samveru við hvort annað, börn, frænkur, foreldra og fjölskyldur.

Kannanir sýna að börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum heldur en þau eiga kost á. Börn sem verja miklum tíma með fjölskyldunni, fá mikinn stuðning en jafnframt aðhald frá foreldrum eru að öllu jöfnu ólíklegri til að neyta áfengis- og annarra vímuefna. Þau eru einnig líklegri til að standast neikvæðan hópþrýsting. SAMAN-hópurinn stendur fyrir skemmtilegri keppni til að ramma inn þær hugmyndir sem hér hafa komið fram.Fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum eru hvattar til að senda myndir í keppnina af fjölskyldunni saman, við leik og störf. Myndir eru sendar í keppnina á heimasíðunni www.samanhopurinn.is

Geir Bjarnason forvarnafulltrúi

SAMAN-hópurinn hvetur til þess að ríkið verði áfram með einkasölu á áfengi

SAMAN-hópurinn ítrekar fyrri afstöðu sína[1] og lýsir yfir andstöðu sinni við framkomnar tillögur að breytingum á áfengislögum. Í þeim er lagt til að afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á sölu áfengis og leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum.

Rannsóknir hafa sýnt að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu[2] með neikvæðum afleiðingum á líf barna og ungmenna, beint og óbeint.[3]

Forvarnarstarf undanfarinna ára hefur skilað miklum árangri sem birtist í minnkandi áfengisneyslu barna og ungmenna.[4] SAMAN-hópurinn telur aukið aðgengi að áfengi vera skref aftur á bak í vernd barna gegn óæskilegum áhrifum áfengisneyslu.

Hlutverk SAMAN-hópsins er að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu með jákvæðum skilaboðum og stuðla þannig að vímuvarnaforvörnum

 

 

SAMAN-hópurinn er samstarfshópur fulltrúa 22 sveitarfélaga, stofnana og frjálsra félagasamtaka sem vinna að velferð barna og ungmenna. Markmið hópsins er að minnka áfengis- og vímuefnaneyslu á meðal barna og ungmenna með áherslu á að virkja foreldra til ábyrgðar. 

 

 

[1] Yfirlýsing send þingheimi og fjölmiðlum í október 2014.

[2] Hildigunnur Ólafsdóttir, 2014 http://naumattum.is/doc/2878

[3] Áfengi - engin venjuleg neysluvara. Samantekt úr bókinni „Alcohol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy“. Lýðheilsustöð, 2005. http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf. Sjá einnig: http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item26458/Aukid_adgengi_ad_afengi_%E2%80%93_aukinn_skadi.  

[4] Vímuefnanotkun unglinga í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi. Þróun frá 1997 til 2013. Rannsóknir og greining 2013. http://www.rannsoknir.is/media/rg/skjol/Throun-vimuefnaneyslu-ungmenna-a-Islandi-1997-til-2013-L.pdf.

Rafrettureykingar unglinga: Úlfur í sauðargæru?

Vímuefnaneysla unglinga á Íslandi er í sögulegu lágmarki ef tekið er mið af niðurstöðum Rannsókna og greiningar, sem leggja reglulega spurningakannanir fyrir alla unglinga á Íslandi. Mætti segja að forvarnarstarf hafi tekist vel síðan árið 2000 og flestir séu meðvitaðir um þá þætti sem hlúa þarf að til að ala upp heilbrigðan einstakling. Meðal þeirra þátta sem hafa verndandi áhrif eru samvera fjölskyldunnar, stuðningur, umhyggja og hlýja.

Þó að almenn vímuefnaneysla sé í lágmarki á meðal unglinga er alltaf hópur sem virðist neyta vímuefna. Sumir halda því fram að framleiðendur leitist sífellt við að koma á markað nýjum vörum til að lokka til sín viðskipti. Forvarnaraðilar streitast á móti með sínu starfi og með upplýsingagjöf til að koma í veg fyrir áætlað ætlunarverk framleiðenda.

Rafrettur (e-cigarette) eða Vape er tiltölulega nýtt fyrirbæri á Íslandi. Rafretta er „stautur í þremur hlutum: rafhlöðuhylki, hitari og munnstykki með vökvalykju og skammtahólfi.“(http://www.laeknabladid.is/tolublod/2015/01/nr/5382) Vökvinn sem er reyktur er oft með bragðefni (t.d. ávaxtabragði) og er til með og án nikótíns. Skaðsemi rafrettna samanborið við sígarettur verður ekki tíunduð hér, heldur þær áhyggjur sem forvarnaraðilar hafa af rafrettunum.
Nýleg rannsókn íslenskra félagsvísindamanna bendir til þess að unglingar sem hafa neytt rafrettna virðast líklegri til að neyta annarra vímuefna umfram þá sem ekki hafa prufað. Jafnvel er talað um að rafrettur séu nýtt milliþrep yfir í notkun á öðrum vímugjöfum. Unglingar sem hafa hingað til verið „forvarðir“ gagnvart vímuefnum virðast nú vera í ákveðinni áhættu. Mætti því segja að svokallað ætlunarverk markaðsaflanna (framleiðenda) um nýja viðskiptavini hafi tekist í gegnum framleiðslu rafrettna.

Ef skoðaðar eru nýjustu niðurstöður könnunar, frá Rannsóknum og greiningu, sem framkvæmd var í febrúar 2015 þar sem fengust svör frá 84% unglinga af öllu landinu í 8., 9. og 10. bekk kemur í ljós að frekar stór hópur hefur prufað rafrettur. Sé litið til landsins í heild segjast 7% unglinga (245) í 8. bekk hafa prufað rafrettur að minnsta kosti einu sinni, 12% í 9. bekk (431) og 17% í 10. bekk (591). Miðað við smitáhrif jafningjahópa og hversu nýtt efnið er má áætla að aukning verði á milli ára, sérstaklega ef foreldrar og nærsamfélag vakna ekki til lífsins.

Rafrettur án tóbaks virðast ekki jafn skaðlausar og sú hegðun að þykjast reykja banana, þó að vökvinn sé bara ávaxtasykur. Hegðunin sem slík, að herma eftir reykingum með því að „veipa“ (neyta rafrettna), virðist auka líkur á annars konar neyslu vímuefna. Í ofanálag ættu einstaklingar yngri en 18 ára ekki að geta keypt rafrettur. Miðað við ofangreindar upplýsingar hvet ég foreldra til þess að horfa ekki í gegnum fingur sér með notkun rafrettna og líta á „veipið“ sömu augum og aðra vímugjafa. Leyfir þú unglingnum þínum að reykja?

 

Þorsteinn V Einarsson

Birtist fyrst á www.visir.is þann 11. desember 2015.