Other languages:

Velheppnað Forvarna- og æskulýðsball í Borgarnesi

Árlegt Forvarna- og æskulýðsball unglinga fór nýlega fram í Borgarnesi og mættu á fjórða hundrað unglingar víðsvegar að af Vesturlandi og Húnavatnssýslum.  

Uppákoma þessi er mjög vinsæl meðal unglinga og er orðin að árlegum viðburði. Félagsmiðstöðin Óðal í Borgarnesi og Nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi sjá um framkvæmd hátíðarinnar. Dagana fyrir ballið er unnið að forvarnarverkefnum í öllum þeim skólum og félagsmiðstöðvum sem taka þátt. Vinnan felst m.a. í  því að fundin eru slagorð sem prentuð eru á barmmerki sem dreift er til gesta um kvöldið.

Ekkert agabrot kom upp á þessari fjölmennu samkomu sem segir allt sem segja þarf um þann samhug sem ríkir meðal unglinganna um að haldið verði áfram á þessari braut.