Other languages:

Til fjölskyldna allra 5. bekkinga

 Vikuna  14.-18. desember munu öll börn í 5.bekk grunnskóla landsins fá veglega gjöf frá Samanhópnum.  Gjöfin er spilastokkur sem börnin fá afhent í sínum skóla en á spilunum eru skilaboð þar sem áhersla er lögð á gildi samverustunda fjölskyldunnar. Vill hópurinn með því hvetja fjölskylduna til að verja sem mestum tíma saman.Verkefnið er styrkt af Pokasjóði.

Niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós að samvera foreldra og barna dregur verulega úr líkum á því að börn og unglingar neyti vímuefna.  Því meiri tíma sem börn og unglingar verja með fjölskyldu sinni því minni líkur eru á því að þau neyti vímuefna. Því er óhætt að segja að samvera með börnunum sínum sé besta forvörnin. Ekki þarf að leita langt yfir skammt til að eiga góðar stundir saman. Fjölskyldan getur borðað saman, horft saman á sjónvarp, farið saman í göngutúra,  stundað íþróttir saman, bakað saman og síðast en ekki síst spilað saman. Þessar samverustundir geta orðið að ógleymanlegri  og dýrmætri stund. Því hvetur Samanhópurinn allar fjölskyldur til að verja sem mestum tíma saman og ekki síst á hátíð ljóss og friðar sem senn gengur í garð.