Other languages:

Samvera í sumar

Nú eru auglýsingar sumarátaks SAMAN-hópsins farnar að birtast víða enda sumarið í algleymi. Yfirskrift átaksins í ár er Saman í sumar. Átakinu er ætlað að hvetja foreldra til að verja tíma með börnum sínum og unglingum yfir sumartímann og bent er á viðfangsefni sem ekki þurfa að kosta mikið eða jafnvel ekki neitt. Göngutúrar, fjöruferðir, spilastund, hjólatúr með nesti, ævintýraferð á nýjar slóðir í hverfinu eða bæjarfélaginu. Og ekki væri verra að bjóða annarri fjölskyldu með.

Sumarátak er eitt af meginviðfangsefnum SAMAN-hópsins ár hvert. Hverju sumri er tileinkað ákveðið slagorð sem byggir á markmiðum SAMAN-hópsins sem og þeim rannsóknarniðurstöðum sem hópurinn byggir starf sitt á. Hér til vinstri má sjá yfirlit yfir sumarátak hópsins í gegnum árin.

Sumarátak SAMAN-hópsins 2012 er framhald átaksins árið 2011 þar sem foreldrar eru hvattir til að verja tíma með börnum sínum og unglingum og byggir á myndefni fyrra árs, SAMAN-sólinni. Skilaboðin til foreldra eru eftir sem áður þau að samvera með foreldrum sé besta forvörnin og foreldrar eru því hvattir til að skapa góðar minningar saman.