Other languages:

SAMAN-sólin afhjúpuð á Akureyri

Þann 1. júlí mun hópur unglinga í vinnuskólanum á Akureyri ásamt listakonunni Jonnu varpa hulunni af SAMAN sólinni 2010 við hátíðlega athöfn í Listagilinu kl. 11.45. Sólinni er ætlað að ylja bæjarbúum um hjartarætur út sumarið og minna á ánægjulegar samverustundir fjölskyldunnar. Í kjölfarið verður slegið upp grillveislu þar sem óvæntir gestir stíga á stokk. Gestir og gangandi eru velkomnir í veisluna.

Brosandi sólir flytja skilaboð

Sumarátak SAMAN hópsins í ár ber yfirskriftina „Saman í sólinni“ og eru það gular brosandi sólir sem flytja skilaboðin. Sólirnar minna okkur á mikilvægi samveru foreldra og barna og unglinga. Unglingar og foreldrar vilja eiga fleiri samverustundir saman og sumarið er kjörinn tími til þess. Við sem búum á Íslandi vitum að á sumrin hellist birtan og gleðin yfir okkur eftir dimma og langa vetur. Sólirnar eiga því enn fremur að hvetja okkur til að grípa tækifærið og skapa góðar minningar með börnunum okkar, unglingunum okkar og með foreldrum okkar. Samvera þarf ekki að kosta mikla peninga, við getum t.d. verið saman að ganga, spjalla, elda, veiða, hjóla, spila og syngja.

Örsögu samkeppni - vegleg verðlaun

SAMAN-hópurinn stendur einnig fyrir skemmtilegri örsögu samkeppni þetta sumarið þar sem vegleg verðlaun eru í boði fyrir alla fjölskylduna. Við hvetjum alla unglinga á aldrinum 14-16 ára til að kynna sér laufléttar leikreglur og taka þátt á heimasíðunni www.samanhopurinn.is.

Björg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfés, [email protected]Gréta Kristjánsdóttir, forvarnafulltrúi Akureyrar, [email protected]Hildigunnur Magnúsdóttir, félagsráðgjafi á Seltjarnarnesi, [email protected]