Other languages:

SAMAN-hópurinn fær styrk úr Forvarnarsjóði

 

Í gær, mánudaginn 27. júní, úthlutaði velferðarráðherra styrkjum úr Forvarnarsjóði. SAMAN-hópurinn átti eina af þeim 102 umsóknum sem úthlutað var til en alls sóttu 170 verkefni um styrk í sjóðinn. SAMAN-hópurinn fékk úthlutað 1 milljón króna í verkefnaáætlun sína fyrir árið 2011 og eru fulltrúar hópsins afar þakklátir. Forvarnir og jákvæður stuðningur við foreldra hefur alltaf verið eitt af meginmarkmiðum SAMAN-hópsins og verður nú í ár sem endra nær.

Styrkir voru veittir til fjölbreyttra verkefna og rannsókna á sviði forvarna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og bættrar lýðheilsu. Þetta er í síðasta sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum. Hæstu styrkina hlutu Fræðslumiðstöð um forvarnir, 5 milljónir króna, Ungmennafélag Íslands fékk 4 milljónir, Háskólinn á Akureyri 3,5 milljónir, Rannsóknir og greining 3 milljónir og Vímulaus æska 3 milljónir króna.