Other languages:

SAMAN-hópurinn ályktar

Mánudaginn 22. febrúar sendi SAMAN-hópurinn Fjármálaráðuneytinu ályktun vegna nýlegrar skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni.

 

Samstarfshópur um forvarnir

www.samanhopurinn.is

Fjármálaráðuneytið Arnarhvoli við Lindargötu

150 Reykjavík

Reykjavík 22. febrúar 2010

Efni: Skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni

SAMAN-hópurinn vill koma á framfæri áhyggjum sínum af nýlegri skýrslu starfshóps fjármálaráðuneytisins um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni og þá sérstaklega þeirri hugmynd að endurskoða áfengiskaupaaldur og lækka hann í 18 ár. Í rúmlega áratug hefur SAMAN-hópurinn beitt sér fyrir forvörnum á sviði áfengis og vímuefna. Síðustu árin hefur verulegur árangur náðst þegar kemur að áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna á grunnskólaaldri. Því miður hefur ekki náðst jafn góður árangur þegar um ungmenni á framhaldsskólaaldri er að ræða en markmið næstu ára er að reyna að minnka neyslu þess hóps. Takmörkun á aðgengi barna og ungmenna að áfengi er til þess fallin að draga úr neyslu ungmenna og koma þannig í veg fyrir skaðlegar afleiðingar hennar. Hætta er á því að lækkun áfengiskaupaaldurs muni hafa í för með sér að ungmenni hafi aukið aðgengi að áfengi og byrji fyrr að drekka.

SAMAN-hópurinn gagnrýnir einnig þá tillögu nefndarinnar að áfengisauglýsingar verði heimilaðar á þeim grundvelli að óraunhæft sé að koma í veg fyrir þær. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þann hóp en aðra.

SAMAN-hópurinn leggur ríka áherslu á að áfengiskaupaaldurinn haldist óbreyttur. Sömuleiðis hafnar hann tillögum um að heimilt verði að auglýsa áfengi og leggur til að löggjöf verði fremur hert til að koma í veg fyrir auglýsingar á áfengi. SAMAN-hópurinn