Other languages:

SAMAN á menningarnótt og samferða heim

Nú líður að Menningarnótt í Reykjavík en hún verður haldin þann 18. ágúst nk. Yfirskrift Menningarnætur að þessu sinni er Gakktu í bæinn. SAMAN-hópurinn hvetur foreldra til að fylgja börnum sínum og unglingum í bæinn á Menningarnótt og heim aftur eftir að hafa notið  dagskrárinnar saman. 

Eftir því sem fram kemur frá stjórnendum Menningarnætur er dagskráin fjölbreytt og allir fjölskyldumeðlimir ættu að geta fundið eitthvað við hæfi.

SAMAN-hópurinn hvetur foreldra til að fylgja börnum sínum og unglingum í bæinn á Menningarnótt og njóta dagskrárinnar saman. Útivistartíminn er í fullu gildi á Menningarnótt. Þótt sumartíminn geri ráð fyrir að börn 12 ára og  yngri séu ekki úti eftir kl. 22 og unglingar yngri en 16 ára ekki úti eftir kl. 24 þarf að taka mið af aðstæðum hverju sinni og foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og unglingum. Alla jafna safnast mikill fjöldi fólks í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt. Því reynir á í samskiptum og samfélagi manna og aðstæður sem börn og unglingar ráða ekki við geta hæglega skapast. Því er mikilvægt að foreldrar hugi að því að börn og unglingar séu ekki eftirlitslaus í miðborginni. Síðasta ár var nokkur umfjöllun í fjölmiðlum um ölvun í kjölfar dagskrár menningarnætur og bágt ástand ölvaðra unglinga sem fluttir voru í Miðbæjarathvarf af lögreglu.

SAMAN-hópurinn hvetur því foreldra til að elska börn sín og unglinga óhikað og setja þeim skýr mörk á Menningarnótt - sem og aðra daga. Fjölskyldan SAMAN á Menningarnótt og samferða heim