Other languages:

Kannabis og ungmenni

Nýlega fór fram vel heppnaður fræðslufundur um kannabis í Bæjarbíói í Hafnarfirði og sóttu yfir 100 manns fundinn. Þar fjölluðu sérfræðingar um skaðsemi og útbreiðslu kannabis.

Við erum sannfærðari nú en nokkru sinni áður um hve kannabis (marijúana og hass) er skaðlegt og sérstaklega börnum og unglingum. Í fyrirlestri Valgerðar Rúnarsdóttur geðlæknis frá Vogi kom fram að minnst fjórðungur þeirra ungmenna sem eru að fikta í efninu fara í fíkniefnameðferð síðar meir. Kannabis er ávanabindandi og hefur skaðleg áhrif heilann. Þetta styðji fjölmargar rannsóknir.

Í fyrirlestri Erlu Birgisdóttur sálfræðings kom fram að rannsóknir sýna að einstaklingar sem neyta efnisins eru líklegri til að upplifa þunglyndi og vanlíðan og eiga í erfiðleikum með athygli og minni. Námsárangur þeirra sem neyta efnanna er einnig lakari  ásamt því sem neysla hefur neikvæð áhrif á lífsgæði seinna meir þ.e.lægra menntunarstig og lakari lífsánægju. Því yngri sem neysla byrjar, því alvarlegri verða áhrifin.

Við viljum þó leggja áherslu á að yfirgnæfandi meirihluti barna og ungmenna í grunn- og framhaldsskólum bæjarins eru í afar góðum málum og lifa heilbrigðu líferni. Það er því mikilvægt að við í litla þorpinu Hafnarfirði, stöndum saman og   spornum gegn neyslu kannabis hjá ungu fólki.Ein besta forvörnin er að vera í góðu tenglum við barnið sitt, ræða þessi mál og sýna samstöðu í foreldrasamfélaginu.  Öll börnin í Hafnarfirði eru börnin okkar!

Geir Bjarnason forvarnafulltrúi Haukur Haraldsson félagsþjónustunni Hafnfj.