Other languages:

Hvatning til sveitastjórna vegna bæjar- og útihátíða

SAMAN-hópurinn hefur undanfarin ár rætt fyrirkomulag útihátíða og bæjarhátíðir sveitarfélaga sem lið í því að huga að forvarnarstarfi, sporna gegn áhættuhegðun unglinga og styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu. Sumarið er ávallt álagstími þegar kemur að því að foreldrar setji skýr mörk gagnvart unglingum sínum og því mikilvægt að skemmtanahaldarar sem og þeir sem gefa leyfi fyrir slíkum hátíðum axli jafnframt ábyrgð á því að þar skapist ekki svigrúm fyrir áhættuhegðun unglinga og styðji þar með við foreldra og gildi samfélagsins. 

SAMAN-hópurinn hefur að þessu tilefni sent sveitastjórnum landsins hvatningu til að huga sérstaklega að þessum málum nú á komandi sumri og er hvatningin liður í sumarátaki hópsins.

Ágæta sveitastjórnarfólk! Hvetjum til samveru fjölskyldunnar í sumar SAMAN-hópurinn mun í sumar vekja athygli  á mikilvægi samveru foreldra og unglinga. Rannsóknir benda eindregið til að samvera fjölskyldunnar sé ein besta forvörnin.  Í nýjustu niðurstöðum Rannsókna og greiningar við Háskólann í Reykjavík kemur fram að sífellt fleiri ungmenni segjast oft eða alltaf vera með foreldrum sínum bæði á virkum dögum og um helgar samfara því að neysla tóbaks, áfengis og annarra vímuefna hjá unglingum er áfram á undanhaldi.  Forvarnastarf síðustu ára og samtakamáttur foreldra hefur skilað mjög miklum árangri hvað varðar neyslu unglinga, sérstaklega hjá börnum á grunnskólaaldri. Unglingar og foreldrar vilja eiga fleiri samverustundir saman og er sumarið kjörinn tími til þess.  Samvera fjölskyldunnar og mikilvægi þess að foreldrar skapi góðar minningar með börnununum sínum verður megininntakið í auglýsingum SAMAN-hópsins í sumar. Lögð er áhersla á að samvera þarf ekki að þýða útgjöld, við getum spjallað saman, spilað saman, sungið, leikið, hjólað, eldað og farið í göngutúra svo dæmi séu tekin. SAMAN-hópurinn vill hvetja sveitastjórnir til að leggja skilaboðum okkar lið í sumar.  Ykkur stendur til boða að nýta án endurgjalds rafrænar auglýsingar og vefborða sumarátaksins sem auðveldlega má koma fyrir á t.d. á heimasíðum sveitarfélaga eða til útgáfu og birtingar eins og hver vill. Einnig býður hópurinn ykkur að nýta og nota öll önnur verkefni SAMAN-hópsins. Nálgast má ítarlegri upplýsingar um efnið á vefslóðinni www.samanhopurinn.is. SAMAN-hópurinn vill hvetja þau sveitarfélög sem bjóða heim á stórar bæjarhátíðir í sumar að hyggja vel að öllu skipulagi er varðar öryggi barna og ungmenna t.d. með því að framfylgja aldurstakmörkunum áfengislaga, lögum um útivistartíma barna og taka mið af öðrum verndarákvæðum barnaverndarlaga. Þá hvetjum við ykkur til að leggja öðru fremur áherslu á  samveru fjölskyldunnar og  á að skapa góðar minningar. Talsmenn SAMAN-hópsins veita fúslega ráð og koma með ábendingar út frá sjónarhorni forvarna sé þess óskað.   Í hópnum eru margir sem hafa reynslu af að bæta skipulag bæjarhátíða með einum eða öðrum hætti.  Við viljum aðstoða svo vel megi til takast. Í hópnum sitja m.a. fulltrúar félagsþjónustu og forvarnafulltrúar víðsvegar af landinu,   lögreglu og landlæknis, lýðheilsu, samtökum foreldra, og annarra sem láta sér forvarnir og velferð barna og ungmenna og fjölskyldunnar varða.  Gleðilegt sumar! SAMAN - hópurinn