Other languages:

Hvatning SAMAN hópsins

Hvatning SAMAN hópsins

ForeldrarElskum börnin okkarVeist þú hvar barnið þitt verður við lok samræmdra prófa?SAMAN hópurinn hefur sent foreldrafélögum grunnskóla, skólastjórum grunnskóla og forstöðumönnum félagsmiðstöðva eftirfarandi hvatningarbréf:

SAMAN hópurinn hefur sent foreldrafélögum grunnskóla, skólastjórum grunnskóla og forstöðumönnum félagsmiðstöðva eftirfarandi hvatningarbréf:

Reykjavík 02.04.2008

Bréf þetta er sent til stjórna foreldrafélaga grunnskólanna, skólastjóra og félagsmiðstöðva

Undanfarin ár hafa fjölmargir aðilar starfað saman að því að gera lok samræmdra prófa að ánægjulegum og eftirminnilegum degi fyrir grunnskólanema og fjölskyldur þeirra. Samstarf þetta þróaðist eftir nokkur dapurleg ár þar sem lokum samræmdra prófa virtist helst fagnað með áfengisdrykkju, hópamyndunum og skrílslátum.

Mikill árangur hefur náðst síðustu ár í þessu samstarfi. Foreldrafélög, félagsmiðstöðvar og grunnskólar hafa unnið saman að því að skapa vettvang fyrir unglingana til að fagna þessum tímamótum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt með ferðalögum eða öðrum uppákomum.

Í ár ber svo við að síðasta samræmda prófið er fimmtudaginn 8. maí og hvítasunnuhelgin strax á eftir. Eitthvað er um að fjölskyldur nýti tækifærið og ferðist um þessa helgi, það á líka við um fjölskyldur 10. bekkinga. Í þessum hópi eru einnig kennarar og starfsmenn félagsmiðstöðva og borið hefur á því að erfiðlega hefur gengið að manna skipulagðar ferðir eða uppákomur við lok samræmdra prófa í ár. Því viljum við hvetja ykkur til að huga sérstaklega að því hvernig staðið verður að lokum samræmdra prófa í ykkar skóla þetta árið og leita allra leiða til að finna sameiginlega lausn á því.

Óeigingjarnt og mikið starf foreldra og unglinganna sjálfra með stuðningi frá grunnskólunum og félagsmiðstöðvum hefur skapað tækifæri fyrir 10. bekkinga til að fagna lokum samræmdra prófa ásamt skólafélögum sínum með ferðalögum eða annars konar uppákomum. Þessi áhersla gefur einnig þá mynd af unglingunum sem við öll viljum sjá og langflestir þeirra standa undir sem jákvæðir, hressir og lífsglaðir einstaklingar.

Með jákvæðu viðhorfi, samstarfsvilja og samvinnu hefur tekist að skapa ánægjulega upplifun fyrir unglinga og fjölskyldur þeirra við lok þessa áfanga. Það er von okkar að sameiginlegt markmið og samvinna haldi áfram því þannig hlúum við best að börnum okkar og ungmennum.

Með þessu bréfi viljum við þakka foreldrafélögum, grunnskólum og félagsmiðstöðvum þeirra mikilvæga framlag undanfarin ár og hvetja ykkur til að láta ekki undan síga þó að á brattan geti verið að sækja. Hægt er að leita til ÍTR, Heimilis og skóla og SAMFOK um ráð og hugmyndir.

SAMAN-hópurinn