Other languages:

Höfðinglegar móttökur í Molanum

Fyrsti fundur SAMAN-hópsins árið 2012 var haldinn í Molanum, ungmennahúsi Kópavogsbæjar. Andri Lefever, forstöðumaður Molans, kynnti starfsemina stuttlega fyrir hópnum og bauð upp á kaffi og meðlæti. Hópurinn var áhugasamur um strarfsemi hússins.

Á þessum fyrsta fundi ársins var framkvæmdaráætlun hópsins rædd sem og verkefnahópar. Geir Bjarnason, gjaldkeri hópsins, fylgdi áætluninni úr hlaði og næstu skrefum í öflun styrkja. SAMAN-hópurinn er grasrótarhópur og rekur hvorki starfsmann né skrifstofu og vinnur allt sitt starf fyrri styrkjafé. Allt það fjármagn sem aflast fer óskert til verkefna hópsins, s.s. birting og hönnun auglýsinga. 

Hópurinn ræddi einnig möguleika á að nýta fjarfundarbúnað eða veflausnir eins og SKYPE til að auðvelda þeim fulltrúum hópsins sem eru utan höfuðborgarsvæðisins en fundir hópsins fara alla jafna fram þar. 

Fleiri mál voru á dagskrá fundarins, Marítafræðsla, lagafrumvörp sem snúa að forvörnum og þjónustu við börn og unglinga, viðhorf foreldra til forvarnarstarfs svo fátt eitt sé nefnt.

Næsti fundur hópsins verður í febrúar en hópurinn fundar alla jafna fyrsta mánudag hvers mánaðar.