Other languages:

Fylgjum börnum í skólann

Í tilefni skólabyrjunar sendi SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, frá sér eftirfarandi hvatningu til foreldar.

Foreldrar - Fylgjum börnum í skólann

SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, vilja hvetja foreldra til að ganga með börnum sínum í skólann fyrstu skóladagana. Þetta á ekki síst við um yngstu börnin sem eru að hefja skólagöngu. Mikilvægt er að sýna þeim heppilegustu leiðina og benda þeim á hvaða hættur skal varast. Gangan er auk þess skemmtileg og hressandi fyrir alla og gefur foreldrum innsýn í heim barnsins og umhverfi skólans.

SAMFOK vill jafnframt benda foreldrum á að reglur um útivistartíma barna og unglinga taka breytingum þann 1. september. Þá mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 20.00 en 13 til 16 ára unglingar mega vera úti til klukkan 22.00. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár.

Útivistarreglurnar eru í samræmi við barnaverndarlög. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi um það bil 10 tíma svefn á nóttu. Við viljum árétta að foreldrar geta að sjálfsögðu stytt útivistartíma barna sinna í samræmi við aðstæður.