Other languages:

Foreldrar og framhaldsskólanemar

Nú líður að upphafi framhaldsskólans og ungmenni, einkum þau sem eru að hefja sitt fyrsta ár í framhaldsskólum, eru farin að huga að upphafi skólans. Það eru foreldrar líka því mörgum foreldrum eru þessi tímamót að sumu leyti kvíðvænleg þótt tilhlökkun og stolt yfir unga fólkinu sé oftast nær ráðandi. Framhaldsskólagöngunni fylgja nefnilega miklar breytingar og þótt flestar lúti að auknum tækifærum til vaxtar og þroska býður umhverfið í framhaldsskólum jafnframt upp á hættur fyrir unga fólkið sem flestir foreldrar eru meðvitaðir um.

Miklar breytingar verða oft á vinahópum og högum ungmenna þegar þau hefja nám í framhaldsskóla. Nýir vinir og kunningjar og öflugt félagslíf er freistandi og skemmtilegt en býður jafnframt upp á að aðkoma foreldra er oft á tíðum minni en verið hefur í gegnum grunnskólagönguna. Rannsóknir sýna jafnframt að mikil aukning verður á neyslu áfengis og annarra vímuefna á fyrsta ári framhalsskólans og er það áhyggjuefni að sá mikli árangur sem náðst hefur í að vinna gegn unglingadrykkju skuli ekki ná lengra fram á framhaldsskólaaldurinn.

Unga fólkið  þarf því áfram á aðhaldi og stuðningi að halda og í nýrri skýrslu Rannsókna og greiningar kemur fram að foreldrar og framhaldsskólanemar virðast í mun meiri tengslum en var fyrir um tíu árum síðan. Foreldrar framhaldsskólanema virðast sýna þeim mun meira aðhald og stuðning. Unga fólkið svarar því til að foreldar þeirra fylgist meira með því hvar þeir eru á kvöldin, hverjum þeir eru með og setji þeim mörk varðandi útivistartíma. Því ber að fagna enda sýnir fjöldi rannsókna að umhyggja og aðhald skipta sköpum gegn áhættuhegðun unglinga.

Víða í framhaldsskólum eru nú starfandi foreldrafélög og SAMAN-hópurinn hvetur foreldra til að taka öflugan þátt í starfi þeirra.

Foreldrar - Elskum óhikað!

18 ára ábyrgð á börnunum okkar eru ekki innantóm orð, nærgætni, virðing og handleiðsla foreldra skiptir máli.