Other languages:

Fjölskyldan saman um verslunarmannahelgina

SAMAN-hópurinn hefur um árabil hvatt foreldra til að skipuleggja verslunarmannahelgina með það fyrir augum að fjölskyldan geti notið hennar saman. Þá er bæði átt við að foreldrar leyfi ekki unglingnum sínum að vera eftirlitslausum heimavið á meðan þeir bregða sér í ferðalag og að þeir gefi unglingnum sínum ekki leyfi til að fara eftirlitslausum í útilegu, á útihátíðir eða í sumarbústaðaferðir.

Mikið framboð er af afþreyingu fyrir landsmenn í tilefni verslunarmannahelgar. Sums staðar er höfðað til fjölskyldna þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi en annars staðar er dagskrá eða viðfangsefni miðað að þrengri hópi. Sumir foreldrar hafa tekið á það ráð að tala sig saman og skipuleggja ferðalög eða uppákomu í samvinnu við aðra foreldra. Og ekki þarf að leita langt yfir skammt og alls ekki allir sem leggja í útilegur eða ferðalög. Grillveisla, leikjadagur eða spilakvöld geta gert mikla lukku og skapað skemmtilegar samverustundir.

SAMAN-hópurinn vill jafnframt beina því til foreldra að skilja unglinga sína ekki eftirlitslausa heimavið þegar þeir halda af stað í ferðalög. Mörg dæmi eru um að uppákomur hafi verið með þeim hætti að hinir ungu og tímabundnu húsráðendur fá ekki ráðið við aðstæður sem skapast, svo sem ef hópur gesta gerir sig heimakominn þegar pabbi og mamma eru fjarverandi. Þar á slagorð sumarátaks SAMAN-hópsins frá 2006 vel við, Best er að vera heima þegar gesti ber að garði.

Foreldrar - Elskum óhikað!

Leyfum ekki eftirlitslausar ferðir né eftirlitslaus partý

Njótum Verslunarmannahelgarinnar - SAMAN