Other languages:

Fjölskyldan SAMAN um áramótin

Geir Bjarnason, fulltrúi Hafnarfjarðar í SAMAN-hópnum setti saman stuttan pistil í tilefni hátíðanna framundan fyrir SAMAN-hópinn. 

Desember 2010

Ágætu forráðamenn unglinga

Fjölskyldan SAMAN um hátíðarnar

Nú þegar jól og áramót nálgast er gott að minna á mikilvægi samverustunda fjölskyldna um hátíðirnar.

Samverustundir fjölskyldna eru dýrmætar og hvetja unga fólkið til heilbrigðara lífernis. Auk þess sýna íslenskar kannanir að börn og ungmenni vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum en þau gera.

Verum samstíga um að gera aðventuna, jólin og gamlárskvöld að hátíðarkvöldum þar sem öll fjölskyldan skemmtir sér vel saman. Með því sjáum við til þess að börnin okkar eigi góðar og jákvæðar minningar frá þessum tímamótum. Mikilvægt er að virða útivistarreglur, standa saman gegn eftirlitslausum unglingapartíum og að vera í góðu sambandi við foreldra annarra barna og ungmenna. Þá er ágætt að minna á rannsóknir sem sýna að með því að útvega börnum sínum áfengi eykst áfengisneysla þeirra sem getur svo ýtt undir að vinir barnanna drekki einnig áfengi.

Með samstilltu átaki undanfarin ár hafa foreldrar á Íslandi séð til þess að gera aðventu, jól og áramót að friðsælli fjölskylduhátíð. Tryggjum að svo verði áfram.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

SAMAN-hópurinn