Other languages:

Betri tengsl foreldra og framhaldsskólanema

Rannsóknir og greining kynntu helstu niðurstöður skýrslunnar Ungt fólk 2010 - Framhaldsskólanemar í Þjóðminjasafninu fimmtudaginn 9. júní sl. Skýrslan byggir á könnunum sem lagðar hafa verið fyrir framhaldsskólanema árin 2000, 2004 og 2010 og þeir þættir sem fjallað er um eru menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn ungmenna í framhaldsskólum á Íslandi. Það sem m.a. kemur fram er að framhaldsskólanemar telja foreldra sína vita frekar hvar þeir eru á kvöldin nú en áður og foreldrar setji þeim frekar reglur um hvenær þeir eigi að koma heim á kvöldin.

Skýrslan er um margt áhugavert og sérstaka athygli vakti það hjá þeim fulltrúum SAMAN-hópsins sem voru á staðnum að skv. tölum frá 2010 virðast tengsl framhaldsskólanema og foreldra þeirra vera að styrkjast til muna ef miðað er við árin 2000 og 2004. Fleiri framhaldsskólanemar svara því nú til að það eigi vel við þá að foreldrar setji þeim reglur um hvenær þeir eigi að koma heim á kvöldin. Árið 2000 sögðu tæp 17% stráka og rúm 20% stelpna að slík fullyrðing ætti frekar eða mjög vel við þau en árið 2010 sögðu rúm 27% stráka og rúm 31% stelpna að fullyrðingin ætti frekar eða mjög vel við þau. Á sama tímabili hefur þeim framhaldsskólanemum jafnframt fjölgað sem segja foreldrar sína viti hvar þeir séu á kvöldin. Árið 2000 svöruðu rúm 43% stráka og tæp 56% stelpna því til að þau væru frekar eða mjög sammála þeirri fullyrðingu en árið 2010 voru rúm 52% stráka og 66% stelpna sem voru frekar eða mjög sammála því að forldrar þeirra vissu hvar þau væru á kvöldin. Skýrsluna í heild sinni er að finna á heimasíðu Rannsókna og greiningar

Þetta eru afar jákvæðar fréttir og SAMAN-hópurinn fagnar þessum niðurstöðum sérstaklega. Eitt af helstu markmiðum hópsins undanfarin ár hefur verið að minna foreldra á ábyrgð þeirra á lífi og velferð barna sinna upp að 18 ára aldri. Slakaðu á en slepptu ekki er yfirskrift bæklings sem SAMAN-hópurinn gaf út og hefur dreift til foreldra nýnema í framhaldsskólum ár hvert.