Other languages:

Bagg er bögg

SAMAN-hópurinn vekur athygli á átaksverkefni Jafningjafræðslu Hins hússins, Knattspyrnusambands Íslands og Lýðheilsustöðvar gegn munntóbaksnotkun.

Jafningjafræðsla Hins Hússins, Knattspyrnusamband Íslands og Lýðheilsustöð hafa ákveðið að snúa bökum saman og einbeita sér að því að sporna við munntóbaksnotkun ungs fólks. Átaksverkefnið kallast „Bagg er bögg“ en mikil aukning hefur átt sér stað í notkun munntóbaks á undanförnum árum. Samkvæmt nýjustu rannsóknum Lýðheilsustöðvar nota 19% karlmanna á aldrinum 16-23 ára munntóbak og þar af 15% daglega. Tvö prósent kvenna í sama aldursflokki nota munntóbak en dagleg neysla mælist hins vegar ekki hjá þeim. Aukningu í munntóbaksnotkun má einnig greinilega sjá þegar sölutölur ÁTVR frá árinu 2009 eru bornar saman við fyrri ár. Á síðasta ári seldust 23,8 tonn af neftóbaki sem er tvöföldun á 6 árum, en árið 2003 voru það 11,6 tonn. Einn liður átaksins felst í því að Jafningjafræðsla Hins Hússins mun fræða annan og þriðja flokk knattspyrnuiðkenda um munntóbak, en mikill misskilningur virðist ríkja um mjög margt er við kemur munntóbaksnotkun. Einn sá útbreiddasti er að tóbakið hafi jákvæð áhrif þegar kemur að íþróttum. Raunin er hins vegar sú að æðarnar þrengjast sem veldur því að blóðflæði minnkar til vöðvanna. Þetta getur svo aftur haft þau áhrif að æfingar skila minni árangri auk þess sem líkur á meiðslum aukast og íþróttamenn sem nota munntóbak eru lengur að ná sér af meiðslum. Þrengri æðar valda þar að auki auknu álagi á hjartað og blóðþrýstingur hækkar. Í munntóbaki eru einnig 28 þekkt krabbameinsvaldandi efni og allt að ferfalt meira magn af nikótíni heldur en í sígarettum.

„Bagg er bögg“ tekur því á vaxandi vanda og veggspjöldum um málefnið hefur verið dreift til skóla, íþróttafélaga og í félagsmiðstöðvar. Fleiri upplýsingar um munntóbak má finna á www.lydheilsustod.is/munntobak.