Other languages:

Áskorun til þingmanna

Áskorun til þingmanna vegna frumvarps til laga um sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum

Samherjar eða mótherjar ?

SAMAN-hópurinn skorar á alþingismenn að standa vörð um heilbrigði og framtíð íslenskra barna og ungmenna og samþykkja ekki frumvarp um sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum.

Samherjar eða mótherjar ?

SAMAN-hópurinn skorar á alþingismenn að standa vörð um heilbrigði og framtíð íslenskra barna og ungmenna og samþykkja ekki frumvarp um sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum.

Í SAMAN-hópnum eru nú tæplega 30 fulltrúar frá öllum stærstu sveitarfélögum landsins auk helstu félaga og samtaka sem láta sig velferð barna og ungmenna varða. Markmið SAMAN-hópsins eru

Að vinna gegn áhættuhegðun barna og unglinga, styðja við heilbrigðan lífsstíl og koma í veg fyrir að börn og unglingar ánetjist áfengi og öðrum vímuefnum Að efla samtakamátt og samstarf þeirra sem vinna að forvörnum. Þeir sem standa að hópnum eiga það sammerkt að vinna á einhvern hátt með og fyrir börn og unglinga. Tengist sú vinna einkum forvörnum, uppeldi, menntun, meðferð og ráðgjöf. Að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af áfengi og vímuefnum í samfélaginu. Að styrkja og styðja foreldra í uppeldishlutverkinu og beina athygli foreldra að ábyrgð þeirra á uppeldi barna sinna og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar.

SAMAN-hópurinn hefur í sínu starfi frá upphafi tekið mið af rannsóknum færustu vísindamanna, bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi. Hópurinn hefur bent á mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar og þess að foreldrar verji tíma með börnum sínum. SAMAN-hópurinn hefur minnt foreldra á ábyrgð þeirra á börnum sínum a.m.k. til 18 ára aldurs. Ennfremur hvatt foreldra til að virða reglur um útivistartíma, vita hvar börnin eru og hvað þau hafast að.

Íslenskir foreldrar hafa upp til hópa staðið sig með miklum sóma og tekið hvatningum og ábendingum SAMAN-hópsins geysilega vel. Neysla íslenskra unglinga á áfengi og öðrum vímuefnum hefur minnkað undanfarinn áratug og er minni en í löndum sem við berum okkur saman við. Hópamyndun og unglingadrykkja við lok samræmdra prófa heyrir sögunni til.

SAMAN-hópurinn þakkar þennan árangur fyrst og fremst væntumþykju og umhyggju foreldra og áhuga þeirra á að standa sig í uppeldishlutverkinu. Ennfremur öllum þeim aðilum sem stutt hafa við bakið á foreldrum, skólunum, starfsfólki íþrótta- og tómstundastarfs, félagsþjónustunni, lögreglunni og öllum þeim áhugasömu aðilum í þjóðfélaginu sem aðstoðað hafa við að koma skilaboðum á framfæri við foreldra.

SAMAN-hópurinn tekur mark á niðurstöðum allra þeirra rannsókna sem ótvírætt sýna að aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu þess, líka meðal unglinga, sjá nánar niðurstöður rannsókna á heimasíðu Lýðheilsustöðvar, http://www.lydheilsustod.is/utgafa/baekur-baeklingar-listar-rit/afengi-og-vimuvarnir/.

SAMAN-hópurinn telur að frumvarpið gangi gegn allri reynslu og þekkingu sem hefur gefið góða raun í forvarnarstarfi á Íslandi undanfarin ár. Við þurfum á stuðningi íslenskra stjórnvalda að halda til að styðja við heilbrigðan lífsstíl og koma í veg fyrir að börn og unglingar ánetjist áfengi og öðrum vímuefnum.

Alþingismenn! Ef þið eruð í minnsta vafa, þrátt fyrir áðurnefndar rannsóknaniðurstöður, þá ber ykkur að láta börnin okkar og framtíð þeirra njóta hans!