Other languages:

Aprílfundur SAMAN-hópsins

 

SAMAN-hópurinn fundar nú mánaðarlega og mánudaginn 4. apríl fundaði SAMAN-hópurinn í húsakynnum Heimilis og skóla að Suðurlandsbraut. Góð mæting var á fundi hópsins og var Jón Sigfússon hjá Rannsóknum og greiningu gestur fundarins.

Jón fjallaði um nýútkomna skýrslu Rannsókna og greiningar, Fyrsta ölvunin, þar sem teknar eru saman niðurstöður rannsókna meðal grunnskólanema og síðar sömu hópa á fyrstu árum í framhaldsskóla. Niðurstöðurnar benda til þess að sá góði árangur sem náðst hefur með forvarnarstarf gegn áfengisdrykkju unglinga sé smátt og smátt að hafa áhrif upp í framhaldsskólann en enn er mikið starf sem vinna þarf með framhaldsskólanemendum þar sem stökkið er stórt. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér. Jón sýndi einnig niðurstöður sem sýna neyslu og fikt með kannabisefni sem voru nokkuð sláandi og m.a. var fjallað um í fjölmiðlum, í tengslum við nýtt átak, Bara gras?, sem hrundið hefur verið af stað til að sporna við neyslu kannabis meðal unglinga og ungs fólks.

Fleira var rætt á fundi hópsins, notkun barna á samskiptasíðum eins og Facebook þar sem 13 ára aldurstakmörk virðast ekki virt, rafrænan útivistatíma, foreldrasáttamála og samstarf þeirra fjölmörgu hópa sem starfa að forvarnarmálum á Íslandi í dag. Að auki voru rædd þau verkefni sem eru framundan hjá hópnum.

Næsti fundur hópsins verður hjá SAMFÉS í byrjun maí.