Other languages:

Ályktun SAMAN-hópsins um unglingaskemmtanir

Til sveitarstjórna á Íslandi

Ályktun SAMAN-hópsins vegna skemmtana fyrir unglinga undir lögaldri á vínveitingastöðum.

SAMAN-hópurinn lýsir yfir áhyggjum af endurteknum unglingaskemmtunum á vegum einkaaðila fyrir börn undir lögaldri á vínveitingahúsum og vill hvetja forsvarsmenn sveitarfélaga til að móta sér stefnu í slíkum málum.

Markaðssetning á slíkum viðburðum sl. ár virðist nær eingöngu vera í gegnum samskiptasíður og því markviss beint til unglinga fram hjá foreldrum og forráðamönum. Auglýst aldurstakmark miðast alla jafna við neðri mörk, 14 ára aldurinn, en kveður ekki á um efri mörk. Vínveitingarhús hafa undantekningarlaust innréttaðan bar og áberandi áfengisauglýsingar.

Foreldraráð Hafnarfjarðar hefur ályktað um þróun slíkra mála á höfuðborgarsvæðinu og skorað á Hafnarfjarðarbæ að móta skýra stefnu í málinu og vera öðrum sveitarfélögum fyrirmynd. Heimili og skóli – landssamtök foreldra hafa jafnframt ályktað um málið og tekið undir með foreldraráði Hafnarfjarðar.

SAMAN-hópurinn skorar á sveitarfélög að hlúa að börnum og unglingum með því að vinna gegn unglingaskemmtunum á vegum einkaðaila á vínveitingarstöðum. Hópurinn hvetur sveitarfélögin jafnframt til að láta börn njóta vafans þegar umsóknir einkaaðila fyrir unglingaskemmtanir á vínveitingarstöðum berast og hlúa þess í stað að meira uppbyggjandi starfi innan sveitarfélagsins á vegum ábyrgra aðila, s.s. félagsmiðstöðva, ungmennahúsa og æskulýðsstarfi félagasamtaka.