Other languages:

Ættu foreldrar að kaupa áfengi fyrir unglingana sína?

Föstudaginn 5. nóvember sl. var haldin ráðstefnan Íslenskar æskulýðsrannsóknir. Að ráðstefnunni stóðu Æskulýðsráð, Tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS HÍ og Félagsvísindadeild HA í samstarfi við Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF), Rannsóknarstofu í Bernsku- og æskulýðsfræðum (BÆR) og Félag æskulýðs,- íþrótta - og tómstundafulltrúa (FÍÆT). Mörg áhugaverð erindi á ráðstefnunni.

Meðal þeirra sem stigu í pontu var Kjartan Ólafsson, lektor við Háskólann á Akureyri. Hann flutti erindið Hver kaupir? Uppruni áfengis sem unglingar drekka og tengsl við drykkjumynstur þeirra. Kjartan gerði tvær tilgátur um aðkomu foreldra að drykkju unglinga að umtalsefni, annars vegar þá að það borgi sig fyrir foreldra að kaupa áfengi fyrir unglinga og kenna þeim að fara með áfengi og hins vegar að foreldrar eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að útvega eða samþykkja drykkju unglinga sinna.

Kjartan byggir niðurstöður sínar á mörgum rannsóknum, m.a. ESPAD sem nær til fjölda landa. Og niðurstöðurnar eru afdráttarlausar. Þeir unglingar sem hafa fengið áfengi hjá foreldrum sínum eru líklegri til að hafa jafnframt fengið áfengi eftir öðrum leiðum, m.a. fimm sinnum líklegri til að hafa útvegað sér smyglað áfengi, farið sjálf í vínbúðina til að kaupa áfengi og útvegað sér heimabrugg. Þeir unglingar sem hafa fengið áfengi hjá foreldrum sínum eru jafnframt mun líklegri til að hafa orðið drukknir og mun líklegri til að lenda í vandræðum vegna eigin áfengisneyslu, s.s. að lenda á spítala, haft óvarðar samfarir og verið rænd.

Þessar niðurstöður virðast því benda til að það sé ekkert sem mæli með því að foreldrar kaupi áfengi handa unglingum sínum en ansi margt sem mæli gegn því.