Other languages:

Fræðslubrunnur

Eitt meginmarkmið Samanhópsins frá upphafi hefur verið að styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu. Fræðslubrunnurinn er liður í þeim stuðningi við foreldra. Hér fyrir neðan má nálgast upplýsingar sem geta gagnast foreldrum og öðrum uppalendum auk tengla á síður sem tengjast þeim viðfangsefnum sem eru til umfjöllunar. Samanhópurinn hvetur alla til að leggja í fræðslubrunninn og senda ábendingar til hópsins um efni sem þangað á erindi á [email protected]

 

Útivistartími

SAMAN-hópurinn hefur um árabil hvatt foreldra til að kynna sér reglur um útivistartíma barna og unglinga og virða hann. Reglur um útivistartíma eru árstíðarbundnar og taka breytingum 1. september og 1. maí ár hvert. Hópurinn leggur áherslu á að útvistartíminn taki samt sem áður miða af skólatíma að hausti því ein lykilforsenda þess að börnum og unglingum farnist vel er nægur svefn. Á skólatíma 1. september til 1. maí mega 12 ára börn og yngri lengst vera úti til kl. 20 en 13 - 16 ára börn mega lengst vera úti til kl. 22. 1 maí til 1. september mega 12 ára börn og yngri vera lengst úti til kl. 22 en 13 - 16 ára börn mega lengst vera úti til kl. 24. Foreldrum er að sjálfsögðu heimilt að stytta útivistartíma barna sinna enda eru þeir forráðamenn barna sinna og unglinga. Bregða má út af reglunum þegar börn eru í fylgd með fullorðnum og börn 13 - 16 ára eru á heimleið frá viðurkenndri skóla- íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár.

Pöntun á "Útivistareglur - segulspjald" Undanfarin ár hefur SAMAN-hópurinn staðið fyrir prentun á segulmottum þar sem finna má upplýsingar fyrir foreldra um útivistartímann. Sveitarfélög geta pantað seglana hjá SAMAN-hópnum á kostnaðarverði og fengið merki sveitarfélagsins prentað á segulinn í leiðinni.

Segulspjöld

Sveitarfélögunum stendur til boða að kaupa eintök af spjöldunum á kostnaðarverði, með sínu einkennismerkimerki eða án (sjá mynd).

Ef pöntuð eru: 50 - 499 stykki er stykkið á 229 kr. 500 - 999 stykki er stykkið á 199 kr. 1000+ stykki er stykkið á 169 kr. Kjósi sveitarfélag að fá sitt merki á segulinn er kostnaður 39 kr. aukalega fyrir hvert stykki og þá er lágmarkspöntun 1000 stykki.

Veggspjöld

Einnig er hægt að panta veggspjald með sama útliti í stærðinni A3. Veggspjaldið er tilvalið að hengja upp á stöðum þar sem búast má við að foreldrar og börn eigi leið um. Veggspjöldin eru að lámarki 5 saman í pakka og stykkið kostar 598 kr. ( samtals 2.990kr)

Verð á seglum og veggspjöldum eru með vsk en án sendingarkostnaðar.

Samvera

SAMAN-hópurinn hvetur alla til að senda ábendingar um efni í Fræðslubrunninn á [email protected].

Frístundir og samvera

Samvera skapar góð tengsl er eitt af slagorðum Samanhópsins sem á rætur sínar í niðurstöður rannsókna sem sýna að börn og unglingar sem verja tíma með foreldrum sínum eru síður líklegir til að sýna ýmis konar áhættuhegðun. Fjölskyldan getur fengist við ýmislegt saman sem þarf ekki að kosta mikið eða jafnvel ekki neitt. Lengi býr að fyrstu gerð og því er ákjósanlegt fyrir foreldra að hvetja til samverustunda fjölskyldunnar þegar börn eru ung og halda þeim inn í unglingsárin eins og kostur er. Viðfangsefnin þurfa jafnframt ekki að vera flókin.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar má finna Ævintýri á heimaslóð, hugmyndir að viðfangsefnum fjölskyldunnar sem kosta lítið sem ekkert, og Ævintýri á gönguför sem er ætlað yngstu borgurunum í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum.

Þátttaka barna og unglinga í hvers kyns frístundastarfi er gróið í menningu okkar Íslendinga. Frístundastarf er öflug forvörn ef starfið er skipulagt og ábyrgir leiðbeinendur leiða starfið.

Samskipti og samræður

Foreldrahlutverkið er krefjandi og gefandi í senn. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að börn og unglingar foreldra sem beita ákveðnum aðferðum í uppeldi, svokölluðum leiðandi uppeldisháttum, sýna síður merki um þunglyndi, kvíða og áhættuhegðun, s.s. vímuefnaneyslu og afbrotahneigð. Leiðandi uppeldi ýtir jafnframt undir þroska, virkni, sjálfstæði, sjálfsaga og sjálfstraust hjá börnum og unglingum. Það sem einkennir leiðandi foreldra er að þeir krefjast þroskaðrar hegðunar af börnum sínum og unglingum, sýna mikla umhyggju en setja um leið skýr mörk. Jafnframt eru samræður foreldra og barna og unglinga mikilvægur þáttur þar sem foreldrar og börn ræða sjónarmið sín og hugmyndir.

Bókin Ræðum saman – Heima er ein af bókum í bókaflokknum Samvera sem gagnast getur foreldrum í að efla umræður á heimilinu. Bókina má auk þess nálgast hjá Námsgagnastofnum og á bókasöfnum um allt land.

Að ræða við unglinginn sinn um kynlíf og barneignir er sumum foreldrum kvíðvænlegt. Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir halda úti góðri heimasíðu þar sem finna má ýmsar upplýsingar og bæklinginn Samskipti foreldra og barna um kynlíf  má nálgast á vef Embættis landslæknis.

Á síðu ADHD samtakanna má finna leiðbeiningabæklinga fyrir foreldra barna og unglinga með ADHD.

 

Ofbeldi

Ábyrgð okkar fullorðinna gagnvart börnum og unglingum í samfélaginu er mikil, einkum þegar kemur að því að vernda þau gegn hvers kyns ofbeldi. Ofbeldi hefur því miður margar birtingarmyndir. Of oft er ofbeldi hluti af daglegu lífi barna án þess að upp um það komist og þau fái hjálp.

Á heimasíðu Barnaheilla er að finna mikið af upplýsingum um einkenni, viðbrögð og annað sem snýr að ofbeldi gegn börnum og unglingum undir heitinu Verndum börn.

Kynferðisofbeldi

17% barna verður fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur, 1 af hverjum 5 stúlkum og 1 af hverjum 10 drengjum (Hrefna Ólafsdóttir 2002)

Það er mikilvægt að foreldrar og aðrir uppalendur geti brugðist við einkennum sem geta verið vísbendingar um að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

  • Líkamleg einkenni kynferðis ofbeldis eru ekki algeng.
  • Einkenni tengd tilfinningum og hegðun eru mun algengari. Þau geta verið mjög misjöfn; allt frá “of fullkominni” hegðun til skyndilegrar hlédrægni og þunglyndis – eða jafnvel óskýranlegra reiðikasta, mótþróa og uppreisnar.
  • Kynferðisleg hegðun og talsmáti sem er í engu samræmi við aldur ætti að hringja viðvörunarbjöllu.
  • Verið engu að síður meðvituð um að hjá mörgum börnum eru bókstaflega engin sjáanleg einkenni

Á heimasíðu Barnaheilla er að finna frekari umfjöllun um einkenni, afleiðingar og viðbrögð við grunsemdum ásamt ráðleggingum.

Hvað getur verndað börnin okkar?
Forvarnir snúast um fræðslu. Að fræða barnið um mörk, likama sinn og samskipti. Upplýsingar um fræðslu má finna á heimasíðu Blátt áfram og þar má jafnframt finna bæklinginn 7 skref til verndar börnum okkar.

Verndum þau er bók þar sem fjallað er um skyldur og ábyrgð þeirra sem starfa með börnum og unglingum. Bókin er eftir Ólöfu Ástu Farestveit og Þorbjörgu Sveinsdóttur sem starfa báðar hjá Barnahúsi.

Barnaverndarstofa fer með málefni sem snúa að vernd barna og unglinga og á heimasíðu stofunnar má finna fræðsluefni og annað upplýsingaefni.

Á vef Umboðsmanns barna er jafnframt að finna upplýsingar um lög og skilgreiningar á kynferðisofbeldi.

Einnig eru gagnlegar upplýsingar sem tengjast þessum málaflokki að finna á vef Stígamóta og Lögreglunnar.

Einelti

"Það er skemmtilegast að leika sér þegar allir eru með" segir í texta barnalags eftir Hafdísi Huld. Öll viljum við hafa samfélagið þannig að allir finni sig, fái að njóta sín og sinna hæfileika. Það virðist samt fylgja mannlegu samfélagi að sumir finna sig út úr, eiga ekki upp á pallborðið, rödd þeirra fær ekki að njóta sín. Sumir verða einnig fyrir endurteknu áreiti eða ofbeldi og er þá talað um einelti. Hver eru einkenni eineltis? Er barnið mitt þolandi eða gerandi eineltis? Hvað er til ráða? Á neðangreindum síðum er hægt að nálgast upplýsingar um málefnið sem og á heimasíðu Barnaheilla og í fræðslubæklingi Heimilis og skóla Einelti – góð ráð til foreldra.

Mikið hefur verið talað um einelti síðustu misseri og ár og gott forvarnarstarf unnið á þeim vettvangi. Margir skólar starfa eftir svokallaðri Olweus áætlun sem miðar að því að allir fái að njóta sín og börnin og starfsfólk skólanna lokist ekki inn í hring eineltis og vanlíðunar. Jerico eru landssamtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda.

Erindi eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða og hafa það hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag barna og ungmenna á öllum skólastigum. Markmið Erindis er að opna samskiptasetur þar sem aðstandendur í eineltismálum geta fengið ráðgjöf og þjónustu frá fagaðilum.

Neteinelti.is er fræðsluvefur þar sem fjallað er um birtingarmyndir neteineltis, forvarnir, viðbrögð og afleiðingar. Á vefnum er að finna stuttmynd og myndbönd sem sniðin eru að þörfum ungmenna, aðstandanda og skólafólks.

Starfsfólk skóla, sveitarfélaga og fleiri geta einnig veitt stuðning og ráðgjöf og mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn nýti sér hana. Það er sameiginlegt markmið okkar allra að börnin okkar fái að njóta hæfileika sinna og að þeim líði vel.

 

Netnotkun

Veistu hvað barnið þitt er að gera á netinu?
Netið býður upp á marga möguleika til fræðslu, skemmtunar og samskipta. Því miður felast þar einnig ýmsar hættur, ekki síst fyrir börn og unglinga. Fjárhættuspil og aðrir spennuleikir, ofbeldisfullir tölvuleikir, klám, ofnotkun, óeðlileg samskipti við ókunnuga sem geta haft ýmislegt misjafnt í huga og einelti á netinu setja börnin í áhættu sem þau eiga ekki að þurfa að fást við. Á heimasíðu Barnaheilla - Save the Children á Íslandi er að finna ábendingahnapp þar sem hægt er að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu og gagnlegar upplýsingar og ráðleggingar varðandi ofbeldi á netinu. Eins er að finna aragrúa fræðsluefnis, kennsluefnis og heilræða á heimasíðu SAFT og á síðunni neteinelti.is.

Einn af fylgifiskum netnotkunar sem margir foreldrar þekkja eru slæm áhrif á athafnir daglegs lífs eins og erfiðleikar við að fá börnin til að borða með fjölskyldunni á matmálstímum og fara að sofa á réttum tíma með tilheyrandi þreytu morguninn eftir. Góðu fréttirnar eru þær að það er margt sem foreldrar geta gert til að verja börn sín fyrir þeim ókostum sem netinu fylgja. Fyrst og fremst þurfa foreldrar að gefa sér tíma til þess að kynnast netnotkun barna sinna og verja tíma með þeim: tala um netdaginn eins og skóladaginn og beina notkuninni í jákvæðan farveg, t.d. með því að spila saman skemmtilega leiki, sinna sameiginlegum áhugamálum eða finna fróðlegt efni. Eins þurfa foreldrar að setja skynsamlegar reglur um netnotkun barnsins um leið og það fetar sín fyrstu spor á netinu og má nota 10 netheilræði SAFT og Börn og miðlanotkun sem góð viðmið.

Vímuefnanotkun

Unglingsárin einkennast af breytingum. Oft getur verið erfitt að greina á milli eðlilegra, tímabundinna breytinga og þeirra sem stafa af vímuefnavanda. Gruni foreldra að börn sín séu að fikta við vímuefni eða standi ráðalausir gagnvart mikilli neyslu og skaðlegri hegðun geta þeir hringt í ráðgjafasíma Vímulausrar æsku - Foreldrahúss: 581 1799. Hægt er að hringja í foreldrasímann hvenær sem er sólarhringsins, allt árið um kring. Samtökin bjóða einnig upp á sjálfstyrkingarnámskeið og stuðningshópa fyrir unglinga og foreldra.

Á heimasíðu SÁÁ  er að finna góða umfjöllun um það mál og fleira sem tengist uppeldishlutverkinu á þessum árum. Þar er einnig tekið á áleitnum viðfangsefnum á borð við samstöðu foreldra, meðvirkni, kannabisnotkun og vímuefnavanda ungs fólks. Eins má nálgast gagnlegar upplýsingar, greinar, pistla og árlegt tímarit af vettvangi vímuefnamála hjá FRÆ - félagi áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu. FRÆ stendur fyrir árlegri forvarnaviku og á aðild að Samstarfsráði félagasamtaka í forvörnum (SAFF) sem heldur úti fræðsluverkefninu Bara gras?

Rannsóknir og greining hefur rannsakað vímuefnaneyslu barna og ungmenna á Íslandi frá árinu 1999. Á heimasíðu fyrirtækisins má finna töluvert magn af upplýsingum og skýrslur sem gefa góða yfirsýn í þróun þessa málaflokks undanfarin ár. Samráðshópur um forvarnir hjá Reykjavíkurborg hefur í samvinnu við Rannsóknir og greiningu unnið bækling um þróun vímuefnaneyslu frá lok grunnskóla til fyrstu annar í framhaldsskóla. Þar gefur að líta nokkuð sláandi upplýsingar sem allir foreldrar ættu að gefa gaum.

 

Heilbrigði

Andleg heilsa og sjálfsmynd

Grunnur að góðri andlegri heilsu og sterkri sjálfsmynd er lagður snemma á lífsleiðinni.

Á vefnum Sjálfsmynd má finna fræðslupisla fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi barna og unglinga.

Mataræði

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hafa gert umsögn um norrænt hollustumerki á matvæli til að auðvelda foreldrum í dagsins önn að velja hollari valkost í innkaupum. Þeir sem jafnframt vilja kynna sér þingsályktunartillögu um hollustumerki Skráargatið geta nálgast hana hér.

Á síðu Heilsugæslunnar í Reykjavík 6h.is má nálgast upplýsingar fyrir foreldra um mataræði eftir aldri barna sem og matarumhverfi þeirra.

Hreyfing

Á heimasíðu Heilsugæslunnar í Reykjavík, 6h.is er, að finna haldgóðar upplýsingar fyrir foreldra um hreyfingu barna eftir aldri og þroska.